Stjórnmál Fyrirhuguð moskubygging í Reykjavík og fjármögnun hennar var rædd á fundi borgarráðs í kvöld.
Sjálfstæðismenn bókuðu:
„Í mars sl. bárust fregnir af því að Sádi-Arabar hygðust leggja rúma eina milljón Bandaríkjadala eða 135 milljónir króna til byggingar mosku í Reykjavík. Við það tækifæri var haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að umrætt fjárframlag þarfnaðist skýringa, m.a. hvort framlagið hefði verið þegið og hvort því fylgdu einhver skilyrði. Sagði borgarstjóri að borgaryfirvöld myndu afla upplýsinga um fjármögnun erlendra aðila varðandi umrædda byggingu. 19. nóvember, rúmum átta mánuðum eftir að tilvitnuð ummæli borgarstjóra féllu án þess að umræddar skýringar lægju fyrir, fylgdu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins málinu eftir með því að óska eftir greinargerð um hvernig fjármögnun fyrirhugaðrar moskubyggingar í Reykjavík yrði háttað,“ segir í bókuninni.
Bókun sjálfstæðismanna var lengri:
„Í framlögðu svari borgarstjóra, dags. 19. janúar, er áleitnum spurningum um fjármögnun moskunnar engan veginn svarað. Hér á fundinum hefur komið fram að borgarstjóri hefur ekki einu sinni óskað skriflega eftir því að byggingaraðili, Félag múslima á Íslandi, upplýsi um hvernig byggingin verður fjármögnuð og hlutdeild hugsanlegra styrktaraðila í henni. Helst er að finna upplýsingar um málið í minnisblaði mannréttindaskrifstofu en þær eru þó allsendis ófullnægjandi. Í umræddu minnisblaði er vitnað í fjölmiðlaummæli fyrrverandi og núverandi formanns félagsins um málið. Samkvæmt þeim fullyrðir fyrrverandi formaður félagsins að ekki verði hægt að byggja mosku hérlendis án erlends fjármagns en núverandi formaður er bjartsýnn á að félagsmenn geti sjálfir staðið allan straum af byggingarkostnaði. Við gerum alvarlegar athugasemdir við það að upplýsingaöflun borgarinnar í þessu máli skuli ekki hvíla á formlegri upplýsingagjöf frá viðkomandi félagi heldur misvísandi ummælum í fjölmiðlum.“
Öfluðum ekki upplýsinga
Borgarráðsfulltrúar meirihlutans bókuðu að vörmu spori:
„Það er rétt að mannréttindastjóri aflaði ekki upplýsinga um fjármögnun moskunnar með bréfaskriftum heldur fundum. Það sem fram kom á þeim fundum kom einnig fram í fjölmiðlum, eins og rakið er í minnisblaði mannréttindastjóra. Meginatriði málsins er að ekki er lagastoð fyrir því að krefjast upplýsinga um fjármögnun kirkjubygginga eða annarra tilbeiðsluhúsa. Á því hefur borgarráð nú vakið athygli Alþingis auk þess sem þeim tilmælum var beint til trúfélaga að upplýsa um fjármögnun uppbyggingar sinnar. Er ánægjuefni að samstaða hafi tekist um þessa stefnu í borgarráði.“
Biðjum vinsamlegast
Tillaga borgarstjóra frá 19. janúar er þessi:
„Með vísan til svara mannréttindastjóra og borgarlögmanns við fyrirspurn um fjármögnun bygginga mosku, og til að stuðla að upplýstri umræðu, samþykkir borgarráð að vekja athygli Alþingis á því að ekki hvílir lagaskylda á trúfélögum um að upplýsa um hvernig staðið er að fjármögnun kirkjubygginga eða tilbeiðsluhúsa. Þá beinir borgarráð þeim tilmælum til allra trúfélaga um að gera grein fyrir fjármögnun slíkrar uppbyggingar, þótt lagaskylda sé ekki fyrir hendi.“