„Hér eru mjög margir góðir viðburðir sem er mikilvægt að komist á dagskrá. Af þeim 23 verkefnum sem er lagt til að fái styrk, eru fjögur sem fá eina milljón eða meira. Styrkja á verkefni sem ber heitið Miðborgin Reykjavík um tíu milljónir en það snýr að því að koma á fót félagi sem á m.a. að vera „vettvangur einstaklinga og fyrirtækja sem starfrækja atvinnurekstur í miðborg Reykjavíkur til að skapa jákvæða upplifun og efla atvinnurekstur, verslun og þjónustu og störf á svæðinu.“ Fulltrúi Sósíalista telur sérstakt að verið sé að styrkja félagið Miðborgina Reykjavík um tíu milljónir þegar styrkir til annarra verkefna sem snúa að því að efla miðborgina eru mun lægri,“ bókaði Sanna Magdalena Mörtudóttir á fundi borgarráðs.
„Furðu vekur að miðborgarsvæðinu sé verulega hampað umfram önnur hverfi, enda það hverfi borgarinnar sem er hvað auðugast af menningarstofnunum, stórum viðburðum og fjölda árlegra hátíða. Nær væri að styrkja önnur hverfi svo þau geti haldið viðburði sem næra samfélagið og efla félagsleg tengsl. Einungis tuttugu milljónir eru til ráðstöfunar úr hverfissjóði borgarinnar fyrir árið 2022 og á það að skiptast á milli hverfa borgarinnar. Úthlutanir nú úr Miðborgarsjóði eru samtals 21.450.000 kr. sem er meira en öll hverfin fá í heild sinni úthlutað úr hverfissjóðnum.“