- Advertisement -

Reykjavík bregst hlutverki sínu sem höfuðborg

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður:
Hér er beitt hinni svokölluðu salami-aðferðafræði af hendi Reykjavíkurborgar; sneið fyrir sneið, bita fyrir bita.
Mynd: islendingur.is

Alþingi / „Bita fyrir bita, sneið fyrir sneið, þannig hefur meiri hlutinn í Reykjavík unnið gegn Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni undanfarin 20–25 ár. Þrátt fyrir samkomulag sem gert var í nóvember á milli samgönguráðuneytisins fyrir hönd ríkisins og Reykjavíkurborgar um að halda áfram að skoða möguleikann á að byggja flugvöll í Hvassahrauni, þar sem borgaryfirvöld hétu því að ganga ekki gegn starfsemi flugvallarins á meðan, skipuleggja sömu borgaryfirvöld veg sem lagður verður í gegnum flugskýli á flugvellinum. Þetta eru hörmuleg vinnubrögð,“ sagði þingmaðurinn Njáll Trausti Friðbertsson Sjálfstæðisflokki, á Alþingi í dag.

„Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni þjónar mikilvægu hlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og sem slík skiptir staðsetning og umgjörð flugvallarins miklu máli. Mikilvægara er þó það hlutverk flugvallarins að vera miðstöð sjúkraflugs í landinu og er þar um brýnt öryggismál landsmanna að ræða. Hefjast þarf handa við veðurfarslegar rannsóknir á því hvaða áhrif nýbyggingar við Hlíðarenda og ný byggð í Skerjafirði munu hafa á rekstur flugvallarins og hvetja samgönguráðherra til þess að stuðla að því að slíkar rannsóknir fari fram,“ sagði Njáll Trausti og bætti við:

„Ég skora á meiri hlutann í Reykjavík, þingmenn, samgönguráðherra og ríkisstjórn að tryggja óskerta starfsemi flugvallarins. Ég skora einnig á borgarstjórn Reykjavíkur að axla ábyrgð sína sem höfuðborg allra landsmanna. Það hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál allra, ríkis og sveitarfélaga, að tryggja öruggar samgöngur til höfuðborgarinnar, auka ferðafrelsi en um leið tryggja jafnan rétt Íslendinga til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Reykjavíkurborg er að bregðast hlutverki sínu sem höfuðborg landsins þegar yfirlýst markmið borgaryfirvalda er að flytja innanlandsflugvöllinn okkar í Vatnsmýrinni með slíkum yfirgangi, að koma flugvellinum við kattarnef án þess að annar jafn góður kostur sé tilbúinn til notkunar. Samningur um sölu ríkisins á landi undir neyðarbrautina í Vatnsmýrinni í mars 2013, rétt fyrir alþingiskosningar, er síðan kafli út af fyrir sig. Ég hef lengi talað fyrir því að það mál verði skoðað ítarlega. Hér er beitt hinni svokölluðu salami-aðferðafræði af hendi Reykjavíkurborgar; sneið fyrir sneið, bita fyrir bita.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: