Neytendstofa hefur bannað Olís að nota heitið rekstrarvörur. Neytendastofu barst kvörtun Rekstrarvara ehf. vegna notkunar Olís á heitinu Rekstrarvörur. Töldu Rekstrarvörur notkunina óheimila og brjóta gegn réttindum sínum þar sem félagið eigi skráð orðmerkið REKSTRARVÖRUR. Væri veruleg hætta á ruglingi milli fyrirtækjanna þar sem margir töldu þau komin í samstarf. Olís hefði notað heitið sem einskonar firmaheiti eða undir-firmaheiti í tengslum við sölu félagsins á sömu þjónustu og vörum og Rekstrarvörur bjóði. Olís hafnaði því að um brot á lögum væri að ræða þar sem heitið væri almennt og hefði aðallega skírskotun til ákveðinnar vörutegundar.Taldi Olís óhjákvæmilegt að nota orðið til þess að koma á framfæri hvernig vörur félagið selji. Hafi Olís gætt þess að ekki skapaðist ruglingur milli fyrirtækjanna þar sem félagið hafi ávallt skeytt sínu myndmerki framan við orðið rekstrarvörur. Rekstrarvörur sé að auki mjög almennt orð. Neytendastofa taldi aðilana keppinauta á markaði og notkun Olís á heitinu gerði það að verkum að mikil hætta væri á ruglingi milli fyrirtækjanna. Þrátt fyrir að orðið lýsi vel þeim tegundum vara sem félögin bjóða upp á hafi Rekstrarvörur notast við heitið frá 1985 og eigi skráð orðmerkið REKSTRARVÖRUR. Réttur Rekstrarvara til heitisins sé því mjög sterkur. Vegna hættu á ruglingi og vegna betri réttar Rekstrarvara til heitisins var Olís því bönnuð notkun þess.