Rekin áfram af fjandskap
- Borgarlínan fellur ekki öllum í geð. „Það hlýtur að vera hægt að stöðva slík mál áður en meira fé er sóað í undirbúning.“
Borgarlínan er á teikniborðinu, hið minnsta er unnið að undirbúningi hennar. Sitt sýnist hverjum um þá áætlun. Davíð Oddsson, einsog margir muna, var borgarstjóri Reykjavíkur í drjúgan tíma, er ekki spenntur yfir Borgarlínunni hugsanlegu.
„Það sem rekur borgaryfirvöld áfram í því að sóa óheyrilegum fjármunum í þetta óþarfa og úrelta verkefni er fjandskapurinn við einkabílinn og flugvöllinn í Vatnsmýrinni. En hvað rekur ríkið til að taka líklega í hugmyndir um jafn yfirgengilega sóun?“ Þetta segir hann í leiðara Morgunblaðsins í dag.
Davíð er harður í baráttunni sinni fyrir greiðum vegi einkabílsins. Eins fyrir framtíð flugvallarins, þar sem hann er.
„Því verður vart trúað að fjármálaráðherra eða aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar telji til greina koma að forgangsraða á næstu árum í þágu borgarlínu. Það getur ekki verið að þeir sem vilja sýna ábyrgð í opinberum fjármálum vilji eyða miklum tíma í að skoða slíka hluti. Það hlýtur að vera hægt að stöðva slík mál áður en meira fé er sóað í undirbúning og hætta aukin á að milljón á mann fari í súginn í framhaldinu,“ skrifar borgarstjórinn fyrrverandi.
-sme