Katrín Jakobsdóttir virðist vera allt önnur en hún var. Skömmu áður en hún gekk Sjálfstæðisflokki á hönd sagði hún á Alþingi:
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Núverandi áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör.“
Í dag sagði sama Katrín: „Nú vinnum við að því að ná slíkri sátt með fulltrúum örorkulífeyrisþega og ég vona að sú vinna muni skila okkur góðum tillögum sem tryggja mannsæmandi kjör fyrir þennan hóp.“
Í dag þola verst settu semsagt bið, bið sem engin veit hversu lengi mun vara. Ekki einu sinni Katrín. Kannski Bjarni Benediktsson.
„Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja biðina eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni. Þá ábyrgð þurfum við öll að axla,“ bætti hún við skömmu fyrir inngönguna í ríkisstjórnina.
Í dag sagði sama Katrín: „…að fara eigi í samskipti við til að mynda fulltrúa örorkulífeyrisþega um kerfisbreytingar á almannatryggingakerfinu þannig að það náist að skapa sátt um slíkar breytingar til að bæta kjör öryrkja.“
Þvílík vonbrigði. En hvers má helst vænta af stjórnmálamönnum?
„En frumskylda stjórnmálamanna er við fólkið. Og leikreglurnar eiga að þjóna fólkinu, tryggja réttlæti og mannúð fyrir alla. Getum við sagt að samfélag þar sem stórum hópum fólks er haldið í fátæktargildru sé réttlátt? Fólks sem hefur til dæmis ekki valið sér þau örlög að verða óvinnufært?“ Þetta sagði Katrín fyrir rétt rúmlega hálfu ári.
Nú er svo að margt fólk kemst ekki til læknis sökum fátæktar, fólk greiðir okurleigu, getur ekki veitt sér nokkurn skapaðan hlut.
„Það hef ég rætt oftar en einu sinni í þessum stól að hinn raunverulegi ójöfnuður birtist í eignaójöfnuði,“ sagði svo forsætisráðherrann Katrín í dag. Það er varla hægt að trúa þessu. Auðvitað er eignaójöfnuður ljótur, en meðan sumt fólk á hvorki til hnífs né skeiðar lifa aðrir í ofgnótt. Það er annað og enn verra mál.
Helst má halda að Bjarni hafi rifið Katrínu upp með rótum. Svo langt er hún komin frá sjálfri sér.
Sigurjón M. Egilsson.