- Advertisement -

Regluverkið gengur út á að lántakandinn taki alla áhættuna

Þá munu bankarnir moka inn vaxtatekjum og þar sem einhverjir lántakar munu ekki geta ráðið við greiðslubyrðina, þá lenda einhverjir í því að missa húsnæðið sitt.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Ég hef aldrei séð opinbera stofnun gefa út þá skoðun að verðtryggð lán og afborganir þeirra hækki í verðbólgu (hvort sem hún er lítil eða mikil) eða að breytilegir vextir slíkra lána hækki ef meginvextir Seðlabankans hækka. Hvað þá að slík stofnun hafi gefið út að varasamt sé að taka verðtryggt lán sé verðbólga á hraðri uppleið (eins og nú um stundir). Kannski fór þessi umræða framhjá mér.

Ég sé hins vegar að opinber stofnun varar við því að vextir óverðtryggðra lána geti hækkað, ef Seðlabankinn hækkar vexti sína (sem ekkert bendir til að gerist í bráð). Vextir sem margir hverjir eru lægri en samtala verðtryggðra vaxta og verðbólgu.

Sama er í gangi núna.

Ábending stofnunarinnar opinberar hins vegar að á Íslandi vantar tvær lánategundir. Önnur er langtímalán með fasta vexti allan lánstímann og án verðtryggingar. Þessi lán eru þekkt í öllum nágrannalöndum okkar og þykja ákaflega mikilvæg til að tryggja langtímastöðugleika. Hin er langtímalán með breytilega vexti en vaxtaþak, þannig að lántaki getur treyst því að þó vextirnir hækki, þá fari þeir aldrei upp fyrir þetta vaxtaþak. Svona lán eru í boði í Danmörku og eru mjög vinsæl.

En margt er líkt með ásókn bankanna á húsnæðislánamarkað með óverðtryggð lán og var með framboð þeirra á gengistryggðum lánum fyrir 15 árum eða svo. Bankarnir vissu þá, að krónan var rangt skráð og hún myndi aldrei halda styrk sínum. Það var því í góðu lagi fyrir bankana að bjóða lága vexti, vegna þess að lánstímanum myndu þeir ná inn hagnaði þegar krónan gæfi eftir, eins og hún jú gerði frá miðju ári 2007. Sama er í gangi núna. Bankarnir gefa sér líklega þá forsendu að lágir vextir Seðlabankans sé bara tímabundið ástand og ekki líði á löngu áður en þeir verði komnir upp í 5% eða jafnvel hærra. Þá munu bankarnir moka inn vaxtatekjum og þar sem einhverjir lántakar munu ekki geta ráðið við greiðslubyrðina, þá lenda einhverjir í því að missa húsnæðið sitt.

Íslenskur húsnæðislánamarkaður er ekkert sérlega lántakenda vænn þegar kemur að umgjörð hans. Allt regluverk gengur út á að lántakandinn taki alla áhættu. Hvergi örlar á því að deila áhættunni eða draga úr áhættu lántakandans. Fastir langtímavextir eða þak á breytilega vexti væru ákaflega lántakendavænar aðferðir. Spurningin er hvaða lánveitandi ríður á vaðið með að bjóða þessi lánsform.

Greinin birtist á Facebooksíðu Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: