Það er hálf öld, fimmtíu ár, í dag frá því ég fermdist í Dómkirkjunni. Prestur var séra Óskar Þorláksson. Hann var eflaust ágætur en ég og hann áttum ekki vel saman. Best er að taka fram og játa að ég var þá óknyttastrákur. Prestinum fannst best að láta mig afskiptalausan, gera enga tilraun til að aga mig eða bæta.
Áhugalaus með öllu mætti ég til prestsins. Lærði ekki það sem hann setti okkur fyrir og ljóst var að við báðir, það er ég og séra Óskar, biðum þess að þessu lyki, að fermingin yrði að baki. Að því kom.
Þá var altarisgangan eftir. Hún gekk ekki einsog að var stefnt. Mamma og Haddi bróðir, sá elsti okkar bræðra, komu með mér og gengu með mér til altaris. Við krupum innst við gráturnar, hægra megin séð úr kirkjuskipinu. Mamma innst, svo ég og síðan Haddi.
Þar sem við krupum sáum við vinstri vangasvip séra Óskars. Hann hélt á Biblíunni og var með lesgleraugu, svon hálf gleraugu og leit yfir þau þegar hann var ekki að lesa. Ég hafði aldrei séð slík gleraugu. Og þótti þau einkennileg. Gott og vel með það. Ef það væri nú allt.
Ekki veit ég hvað það var en þegar presturinn byrjaði að tóna Faðir vorið og horfa yfir gleraugun samtímis, var mér nóg boðið. Ég hafði greinilega ekki upplifað eins fyndið augnablik og byrjaði að hlægja. Mamma skammaðist sín og gaf mér létt olnbogaskot og sama var með Hadda. Þau slógu bæði til mín og séra Óskar truflaðist í meðferð sinni á Faðir vorinu.
Hláturinn jókst, og jókst og þau bönkuðu meira og meira og þá gerðist tvennt. Ég missti máttinn og lagðist fram á gráturnar skellihlægjandi og um leið smitaði ég hin fermingarbörnin og úr varð fjöldahlátur. Ef ég væri ekki að skrifa um atburð í sjálfri Dómkirkjunni, myndi ég segja að ég hafi fokkað altarinsgöngunni upp. Hið minnsta þetta gekk ekki.
Ég, mamma og Haddi fengum hvorki holdið né blóðið. Þegar þessari vandræðalegu athöfn loks lauk og fólk gekk úr kirkju stóð séra Óskar og kvaddi alla með handabandi. Nema mig. Þegar kom að mér færði hann hönd sína afturfyrir bak og horfði á mig hvössum augum. Þetta var refsingin. Ég hef aldrei gleymt henni.
Þegar við þrjú stóðum í Lækjargötu að bíða eftir strætó sagði mamma. „Þú ert algjört fífl.“ Haddi tók undir. Í strætó sagðist mamma aldrei aftur fara með mér til altaris. Og hefur staðið við það.
Sigurjón M. Egilsson.