Menning „Með bjartsýni og gleði að leiðarljósi tilkynnir Record Records að ný hljómsveit hefur bæst í fríðan hóp tónlistarfólks sem gefur út undir merkjum hljómplötuútgáfunnar. Þetta er engin önnur en reggíhljómsveitin AmabAdamA sem hefur átt eitt vinsælasta og mest grípandi lag sumarsins, „Hossa Hossa“.“ Þetta kemur fram í tilkynningu útgefenda.
AmabAdamA er tíu manna hljómsveit skipuð þremur söngvurum auk gítarleikara, bassaleikara, trommuleikara, trompetleikara, saxófónleikara, hljómborðsleikara og slagverksleikara. AmabAdamA er lífleg hljómsveit með meiru og á það bæði við lagasmíðar þeirra og sviðsframkomu. Sveitin hefur starfað í núverandi mynd frá því um vorið 2013 og er óhætt að segja að hún hefur skapað sér sess í framvarðasveit íslensku reggísenunnar ásamt Hjálmum, Ojba Rasta og RVK Soundsystem.
Fyrsta breiðskífa AmabAdamA sem enn ekki hefur fengið nafn mun líta dagsins ljós í haust og ríkir mikil eftirvænting meðal unnenda sveitarinnar sem hefur fjölgað mikið eftir vinsælidir „Hossa Hossa“.
Meðlimir AmabAdamA eru þau Gnúsi Yones, Steinunn Jónsdóttir, Salka Sól Eyfeld, Ellert Björgvin Schram, Hannes Arason, Hjálmar Óli Hjálmarsson, Björgvin Ragnar Hjálmarsson, Ingólfur Arason, Elías Bjartur Einarsson og Páll Sólmundur Eydal.