Sprengisandur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur ekki getað úthlutað öllum þeim peningum sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunnar. Ástæða er trúlega sú að krafan um mótframlag þeirra sem hyggja á framkvæmdir er of há, eða fimmtíu prósent. Hún verður lækkuð í tuttugu prósent.
Þetta kom fram í Sprengisandi í morgun. „Ég er að fara að gefa út nýjar starfsreglur sjóðsins á morgun þar sem við erum að breyta eftirfylgninni. Því það er ekki nóg að veita aukna fjármuni heldur verðum við einnig að laga verklagið. Og það erum við að gera,“ sagði Ragnheiður Elín.
„Annað sem er nýmæli í þessum breyttu starfsreglum – við fórum yfir það af hverju verkefnin eru ekki að klárast. Ein stór ástæða þess var að mótframlagskrafan, þar sem gerð er krafa um fimmtíu prósent mótframlag þeirra sem eru að fá fjármagn úr sjóðnum, var að standa verkefnunum fyrir þrifum.“
Það er mikið álag á náttúruna vegna fjölda ferðamanna. „Við verðum að hafa nauðsynlega innviði til að taka á móti þessum fjölda vegna þess að yfir áttatíu prósent ferðamanna segjast vera að koma hingað vegna náttúrunnar. Og þá verðum við að passa upp á að hún sé í góðu standi til þess að geta tekið við öllum þessum fjölda.“
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er nú, að sögn ráðherra, að fá aukna fjármuni „sem aldrei fyrr“ til að byggja upp innviði, til dæmis fullnægjandi salernisaðstöðu, á fjölförnum ferðamannastöðum.