Samfélag „Ég vil bara segja það að mín upplifun var sú að það sást ekki áfengi á einum einasta manni og þetta átti ekki við nein rök að styðjast,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra, þegar hún var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Tilefni umræðunnar var það að Lilja Rafney Magnúsdóttir þingkona sagði í gær ónafngreindan þingmann vera undir áhrifum.
„Ég verð að segja alveg einsog er, það sá ekki vín á nokkrum einasta manni. Mér finnst fullkomlega óskiljanlegt hvað þingmaðurinn átti við. Mér finnst þetta vont, mér finnst þetta vera þannig að nu liggjum við öll undir grun. Við sátum í sjö klukkutíma að ég held, að greiða atkvæði og þeir sem voru með, ég vil ekki kalla það háreisti, þeir sem létu til sín taka í umræðunni, gerðu það vegna ástríðu fyrir málunum, ekki neinu öðru. Mér finnst þetta ósmekklegt og ég held að þingmaðurinn verði að svara því sjálf hvað hún var að meina. Hafi hún eitthvað til síns máls. Ég held að hún hætti frekar að biðja okkur öll afsökunar á þessu. Það var enginn fótur fyrir þessu,“ sagði Ragnheiður Elín.
Heimir Karlsson spurði hvort ekki væri alvarlegt mál ef svo væri, það er að þingmenn mæti undir áhrifum áfengis til þingstarfa. Ráðherra játti því.
Hér er viðtal þeirra Heimis og Gunnlaugs Helgasonar við Ragnheiði Elínu.