- Advertisement -

Raunveruleikinn er öfgafullur

Það er öfgafullt að á 5 árum hafi atvinnurekendur stolið meira en milljarði af launum félagsfólks Eflingar en stjórnvöld vilji ekki standa við gefin loforð og uppræta launaþjófnað.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Sumum mönnum hugnast ekki orðræða mín svokölluð. Málflutningur minn er kallaður öfgafullur. En staðreyndin er sú að ég geri ekki neitt nema lýsa efnahagslegum raunveruleika verka og láglaunafólks á Íslandi. Ég ber ekki ábyrgð á því að raunveruleikinn sé öfgafullur. Ég einfaldlega axla þá ábyrgð sem ég sannarlega ber og upplýsi um það sem ég heyri og sé og veit:

Það er öfgafullt að verka og láglaunafólk sé neitt til að vera á gróðavæddum leigumarkaði og geti ekki eignast eigið húsnæði. Það er öfgafullt að fólkið sem knúði hér áfram hagvöxtinn með endalausri vinnu sinni á lágmarkslaunum eigi nú að komast af á atvinnuleysisbótum sem allt fólk með örðu af heiðarleika inn í sér veit að duga ekki til að komast af á, hvað þá að sjá fyrir fjölskyldu. Það er öfgafullt að á 5 árum hafi atvinnurekendur stolið meira en milljarði af launum félagsfólks Eflingar en stjórnvöld vilji ekki standa við gefin loforð og uppræta launaþjófnað. Það er öfgafullt að Fréttablaðið birti á forsíðu sinni frétt um að „einhugur“ ríki um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu en ræði aðeins við kapítalista. Það er öfgafullt að lægst launuðustu konurnar á íslenskum vinnumarkaði hafi þurft að vera í verkföllum vikum saman til að fá viðurkenningu frá svokölluðum jafnaðarmönnum á því að þær væru sannarlega ómissandi starfsfólk. Það er öfgafullt að fjöldi verkakvenna missi heilsuna vegna fjárhagsáhyggna og vinnuþrælkunar á ári hverju. Það er öfgafullt að fólki með örorku sé gert að lifa í fátækt. Það er öfgafullt að atvinnulaust fólk þurfi að standa í röð til að fá matargjafir svo að börnin þeirra svelti ekki. 

Þeir verða sér til skammar í hvert sinn sem þeir tjá sig.

Það er öfgafullt að talsmenn eigenda atvinnutækjanna og fjármagnsins á Íslandi skuli eins og ekkert sé kenna því fólki sem leiðir baráttu vinnandi fólks um atvinnuleysið sem öll vita að orsakast af heimsfaraldrinum og aðgerðum stjórnvalda til að sporna við útbreiðslu hans. Það er öfgafullt að menn sjái ekkert athugavert við að nota atvinnuleysið sem vopn í forhertu áróðursstríði gegn forystufólki hreyfingar vinnandi fólks sem er aðeins að sinna því sem það var kjörið til að gera, að verja kjör síns fólks.

Það eru öfgar allt í kringum okkur. Að láta sem manneskjan sem lýsir afleiðingum efnahagslegra öfga arðránskerfisins sé vandamálið er í sjálfu sér öfgakennt rugl. Ég hafna því og allri þeirri skoðanakúgun sem ég hef upplifað og orðið vitni að. Raunverulegir öfgamenn Íslands ættu að líta í eigin barm og reyna að segja skilið við þá mannfjandsamlegu hugmyndafærði sem þeir aðhyllast. Þeir verða sér til skammar í hvert sinn sem þeir tjá sig.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: