- Advertisement -

Rangstæðir ráðherrar

„Hugsanlega þarf næsti landsliðsþjálfari ekki að vita hvað rangstaða er,“ þannig skrifar Páll Gíslason, formaður Verkfræðingafélags Íslands, um vilja ráðherranna Sigurðar Inga og Lilju Daggar um að skipa dýralækni og vin Sigurðar Inga í embætti vegamálastjóra.

Í grein sinni segir Páll Gíslason að ákveðið hafi verið í aðdraganda ráðningarinnar að óskil­greind háskólamenntun eða stjórnunarreynsla skyldi vega samtals 55% af hæfni umsækj­anda.

„Verkfræðingafélag Íslands gerði athugasemdir við að að fagþekking skyldi vera sett skör lægra en reynsla,“ skrifar Páll.

Verkfræðingum þykir eftirtektararvert að í þriggja manna hæfnisnefnd, sem ráðuneytið skipaði vegna ráðningar nýs forstjóra, var enginn tækni- eða verkfræðimenntaður eða með sérþekkingu á því sem Vegagerðin fæst við.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Þá stingur í augu að samgönguverkfræðingur með afar víðtæka reynslu af skipulagsmálum og fjölbreyttum samgöngu­verkefnum hérlendis og erlendis í hálfan annan áratug skuli ekki einu sinni hafa komist í hóp 14 umsækjenda sem teknir voru í viðtal undir lok ráðningarferlisins. Það seg­ir meira en mörg orð um leikreglur og forsendur hæfnis­efndar í mati á umsækj­endum en kemur ekki beinlínis á óvart. Sú staðreynd sýnir og sannar að áhyggjur og aðvaranir VFÍ voru hreint ekki án tilefn­is,“ segir í greininni.

Páll telur að við ráðningu nýs forstjóra Vegagerðarinnar hafi ekki verið staðið faglega að málum.

„Nú hlýtur að mega velta því fyrir sér í al­vöru hvort runnir séu upp þeir tímar að guðfræðimenntaður umsækjandi, með mikla almenna stjórnunarreynslu, hafi foskot á læknisfræðimenntað fólk í umsóknarferli vegna landlæknis. Og hvort læknisfræðimenntaður umsækjandi hafi forskot á guðfræðinga gagnvart embætti biskups Íslands.

Svona í lokin hvarflar sömuleiðis að manni að við val á næsta landsliðsþjálfara í knatt­spyrnu verði óskilgreind reynsla sem gæti nýst í starfi látin vega nálægt 2/3 af kröfunum en knattspyrnuþekking svona rétt nefnd í framhjáhlaupi. Hugsanlega þarf næsti landsliðsþjálfari ekki að vita hvað rangstaða er.“

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: