Rakel Mjöll og Draumaeiginkonurnar hita upp fyrir The Rolling Stones: „Afi hélt að ég væri að grínast“
Söngkonan Rakel Mjöll Leifsdóttir mun hita upp fyrir eina stærstu rokkhljómsveit allra tíma, The Rolling Stones, um helgina í Hyde Park í London, ásamt hljómsveit sinni Dream Wife.
Um þessar mundir fagnar hljómsveitin The Rolling Stones sextíu ára starfsafmæli sínu.
Segir Rakel það vera afar skemmtilegt að taka þátt í þessum tímamótum með Mick Jagger og félögum:
„Þetta kom á borð til okkar fyrir aðeins nokkrum dögum síðan en svona getur tónlistarbransinn verið ófyrirsjáanlegur. Maður veit ekki alltaf hvað maður er að fara að gera hverju sinni. Við þurftum náttúrulega að breyta okkar plönum en ein okkar átti að vera á leið í brúðkaup í Bandaríkjunum og ég stefndi á að koma heim til Íslands í sumarfrí en maður getur náttúrulega ekki sagt nei við þessu. Það er bara ekki hægt,“ sagði Rakel í spjalli við mbl.is.
Bætti við:
„Þetta eru sextíu ár sem þeir eru að fagna sem hljómsveit og það er gaman að geta tekið þátt í því. Þetta er merkilegur áfangi fyrir þá sem hljómsveit og þeir hafa gert mikið fyrir tónlistarsöguna. Þá er gaman að fá að vera hluti af svona flottum upphitunarhljómsveitum; þarna er til dæmis Phoebe Bridgers sem er ein af mínum uppáhalds tónlistarkonum,“ segir hún, en aðrir sem hita upp eru: The War On Drugs, Vista Kicks, JJ Rosa and Kelly McGrath.
Rakel er mikill aðdáandi The Rolling Stones hún hringdi strax í afa sinn sem og færði honum stóru fréttirnar.
„Ég hringdi í afa minn sem er frekar mikill aðdáandi og hann hélt lengi vel að ég væri að grínast í honum. Það tók töluverðan tíma að sannfæra hann,“ segir Rakel í léttum dúr.
Hljómsveitin Dream Wife var stofnuð árið 2014 af söngkonunni Rakel Mjöll Leifsdóttur, gítarleikaranum Alice Go og bassaleikaranum Bellu Podpadec, en þær kynntust í Listaháskóla í Brighton.
Það hefur verið nóg að gera hjá hljómsveitinni; bandið er nýkomið úr tónleikaferðalagi um Bretland og hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli.
„Við höfum verið frekar heppnar og fengið að hita upp fyrir fjölmargar þekktar hljómsveitir og listamenn eins og til dæmis Liam Gallagher og Garbage,“ segir Rakel að lokum.