Mannlíf

Ragnheiður Lárusdóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar

By Ritstjórn

October 14, 2020

Ragnheiður Lárusdóttir hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar

Ragnheiður Lárusdóttir hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2020 fyrir handrit sitt að ljóðabókinni 1900 og eitthvað. Bókin, sem er fyrsta bók höfundar, kemur út í dag hjá bókaforlaginu Bjarti.

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar voru veitt í dag, þriðjudaginn 13. október 2020, við óvenjulegar aðstæður eins og við er að búast á tímum heimsfaraldurs og samkomutakmarkanna. Ekki var um hefðbundna verðlanaafhendingu að ræða en verðlaunahafinn, Ragnheiður Lárusdóttir, tók við verðlaunaskjali og blómvendi við styttu skáldsins Tómasar Guðmundssonar fyrr í dag. Verðlaunaféð er ein milljón krónur.

Verðlaunahandritið, 1900 og eitthvað, kom út á bók í dag hjá bókaforlaginu Bjarti. Vakin er athygli á því að Bjartur býður upp á heimsendingu á bókum eins og mörg önnur bókaforlög og bókaverslanir um þessar mundir.

„Bókmenntaverðlaun Tómasar eiga alltaf sérstakan stað í hjörtum okkar Reykvíkinga en á hverju ári er skilað inn fjölda handrita til dómnefndar sem endurspegla á hverjum tíma það sem er í gangi í íslenskri ljóðlist.“ Segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Ragnheiður Lárusdóttir hefur kennt íslensku og ljóðlist um áratugaskeið á framhaldsskólastigi þannig að ég samgleðst henni innilega fyrir frábært handrit og býð hana velkomna í magnaðan hóp fólks sem hefur fengið þessi eftirsóttu verðlaun.“

Ragnheiður Lárusdóttir

1900 og eitthvað er fyrsta ljóðabók Ragnheiðar en hún hefur birt stök ljóð í gegnum tíðina,  m.a. í Lesbók Morgunblaðsins, á vefritinu Lestrarklefinn og á eigin Facebook síðu. Að eigin sögn hefur hún fengist við að skrifa ljóð frá því hún lærði að skrifa og hefur átt sér þann draum lengi að gefa út bók þótt hún hafi hingað til geymt handritin í skúffunni heima:

„Það er dásamleg og merkileg lífsreynsla þegar draumar rætast. Í dag tek ég við Bókmenntaverðlaunum  Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrsta handritið sem ég reyni að koma á framfæri og á sama tíma kemur það út á bók. Ég er innilega glöð og þakklát.

Ég átti mér alltaf lífsleyndarmál, ég var ljóðastelpa og skrifaði ljóð í leyni.

Ég jarðaði ljóðin mín, þannig gat ég verið viss um að enginn sæi þau eða læsi. Ég er viss um að það er til fullt af svona krökkum og fullorðnu fólki  sem reynir dag hvern að jarða drauma sína, því vil ég segja við alla krakka á öllum aldri:

Ekki gera drauma þína að lífsleyndarmáli og ekki jarða drauminn þinn, leyfðu honum að lifa og vaxa annars grefurðu þína eigin gröf.“

Ragnheiður er fædd árið 1961. Hún er íslenskukennari við Menntaskólann í Kópavogi og lauk meistaranámi í kennslu listgreina frá Listaháskóla Íslands 2016 auk þess sem hún hefur lokið söngkennaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík. 

Umsögn dómnefndar

Í dómnefnd voru þau Sif Sigmarsdóttir, sem var formaður, Börkur Gunnarsson og Eyþór Árnason. Í umsögn nefndarinnar um verðlaunahandritið segir:

„1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur er heillandi uppvaxtarsaga prestsdóttur að vestan, vegferð hennar um torfarnar heiðar jafnt sem lífsins rangala.

Ljóðmælandi dregur upp tærar hversdagsmyndir sem í fyrstu virðast léttvægar; hálfdauðar flugur í gluggakistu kirkjunnar; póstskorturinn sem skellur á þegar ófært er yfir heiðina. En þegar líða tekur á verkið verður lesanda ljóst að það er einmitt í þessum léttvægu stundum sem lífið liggur og örlögin ráðast. Það fellur að og fjarar út, bönd verða til og þau slitna, draumar rætast og vonir bresta, allt yfir kaffibolla, nýveiddum silungi og Andrésblöðum.

1900 og eitthvað er heildstætt verk, falleg saga af uppvexti stúlku í heimi sem er ekki alltaf hennar. Einfaldleikinn er tær og ómengaður. Dregnar eru upp skýrar myndir frá síðustu öld þar sem prestar ferðast á milli fjarða á skíðum til að messa, útvarpið er eina tengingin við umheiminn og fjársjóðurinn sem skipin færa að landi eru eplakassar. Þrátt fyrir erfiðið er dísæt hamingja víða, púðursykur og pönnsur. 

1900 og eitthvað er hófstillt verk um stórfengleika hins smáa og áhrifamátt hversdagsleikans.“

Alls bárust 52 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina í ár og voru þau send inn undir dulnefni. Aðeins var umslag með réttu nafni verðlaunahöfundar opnað. Reykjavíkurborg hefur veitt Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar frá árinu 1994 og hafa þau verið veitt fyrir ljóðahandrit eingöngu frá 2004. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum.