Ragnar Þór Ingólfsson:
Ég legg það ekki í vana minn að svara dylgjum og ávirðingum, sem er því miður fylgifiskur þess að því að vera formaður stærsta stéttarfélags landsins.
Í yfirstandandi kosningabaráttu hefur mótframbjóðandi minn ítrekað sakað mig um ósannindi og lygar. Má þar nefna viðtal við okkur í Silfri Egils þann 5.mars síðstliðinn og í fleiri viðtölum, og í skrifum frá stuðningsfólki hennar sem hafa verið einstaklega hatrömm á köflum. Minna hefur farið fyrir málefnalegri umræðu sem ég hef kappkostað að einbeita mér að.
Í nýlegri færslu frá mótframbjóðanda mínum vísar hún í skrif stuðnigsmanna sinna, sem gagnrýna þá sem styðja mig. En skrifar svo eftirfarandi: Lygar, óheiðarleiki og falsfréttir er það sem einkennir kosningabaráttu Ragnars Þórs og hefur leikið stóran þátt í starfi hans sem formaður, allavega upp á síðkastið, og það mun ekki breytast.
Hún heldur svo áfram að saka mig og annað fólk, sem hefur tjáð sig um kosningarnar um lygar, lýðskrum, óheilindi og ósannindi, og að ég sé klassískt dæmi um valdamikinn mann sem notfærir sér þekkingarleysi annarra til að bera út ósannindi og grafa undan lýðræðinu. Og tekur svo út með setningunni: Minnir þetta á eitthvað eða einhvern??
Þetta er sama manneskjan og gagnrýnt hefur orðræðuna harðlega!
Í kosningabaráttunni sem nú stendur yfir hef ég lesið ótrúlega ósanngjarna og illkvitna hluti um mig og mína persónu frá stuðningsfólki hennar. En það er því miður eitthvað sem ég verð að hafa þykkan skráp fyrir og svara því ekki. Þetta er því miður hluti af því að vera opinber persóna, og að vera í kosningabaráttu.
Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi frá allskonar fólki. Úr öllum áttum, stétta og stjórnmála. Fólki sem að eigin frumkvæði hefur tekið það upp hjá sér að styðja mig í ræðu og riti, og verja, í þeirri vegferð sem ég er í. Ég hef ekki alið allt þetta fólk á lygum eða spilað á þekkingarleysi þess, það kemur fram á sínum forsendum.
Ég hef kappkostað að láta kosningabaráttuna snúast um málefnin, verkefnin framundan og lausnir. Þau sem mig þekkja vita að ég hef ávalt unnið að heilindum og af mikilli ástríðu fyrir fólkið okkar í VR og samfélagið allt, og mun gera það áfram njóti ég stuðnings til þess.
En það sem ég mun ekki gera er að láta draga mig niður á það plan sem mótframbjóðandi minn og stuðningsfólk hennar er komið á og hefur ítrekað reynt að beina umræðunni á þann stað sem það vill helst vera.