- Advertisement -

Ragnar skjálfti krefst skýringa frá VG

Það er nú vandinn sagði talskona Vinstri Grænna.

Ragnar Stefánsson skrifar:

Í hádeginu var viðtal við Rósu Björk Brynjólfsdóttur, hún er í Utanríkismálanefnd alþingis sem fulltrúi Vinstri Grænna og meira að segja varaformaður. Hún er sem sagt flokkssystir mín. Hún lét í það skína að hún teldi eðlilegt að Guðlaugur Þór utanríkisráðherra hefði kynnt dólgslega stuðningsyfirlýsingu sína við valdaránstilraun Bandaríkjanna í Venesúela fyrir nefndinni áður en hann sendi hana út. En hver er þín afstaða spurði fréttamaðurinn. Það er nú vandinn sagði talskona Vinstri Grænna, það er blæbrigðamunur á afstöðu ríkisstjórna á Norðurlöndum, og við þyrftum að skoða þetta aðeins í nefndinni.

Eftir að viðtalinu lauk bætti fréttamaðurinn við, en Rósa er samt fylgjandi lýðræðislegum kosningum í Venesúela, eins og hún hafi gefið í skyn að forsetakosningarnar í fyrra hafi ekki verið lýðræðislegar. Ég trúi því varla að hún hafi haldið því fram að forsetakosningarnar í Venesúela í maí s.l. hafi ekki verið lýðræðislegar.

Krefst þess að flokksforystan útskýri athafnir sínar á félagsfundi.

Fjölmennur hópur eftirlitsmanna víðsvegar að úr heiminum sá varla nokkra hnökra á kosningunum. Henri Falcon fulltrúi hægri stjórnarandstöðunnar, sem fékk 21%, hrópaði vissulega hátt um kosningasvindl eftir kosningarnar en fékk litlar undirtektir. Stjórnvöld í Venesúela hafa nefnilega lagt mikla áherslu á að láta ekki hanka sig á slíku, vitandi af Stóra bróður í nágrenninu sem mundi notfæra sér allt slíkt. Í þeim spuna sem Trump og hans menn hafa spunnið til að undirbyggja valdaránið í Venesúela er þetta eitt það mikilvægasta, að beita „viljugum fjölmiðlum“ heimsins til að koma þeirri falsfrétt sem víðast að forsetakosningarnar hafi ekki verið lýðræðislegar. Nú reyna Trump-menn að safna sem flestum ríkisstjórnum bakvið sig til að undirbyggja næstu skref í valdaráninu. Að taka undir falsfréttir viljugra fjölmiðla Trumps er sama og að undirbyggja næstu aðgerðir hans.

Ríkisstjórnir Evrópskra kapítalista sem hafa hætt Trump og gefið í skyn hatur sitt á honum fylgja honum nú eins og halaklipptir hundar, hræddir um að næsta árás finngálknisins í vestri lendi á þeim.

En hvað með VG á Íslandi? Öll stefna flokksins, öll umræða á aðalfundum og flokksráðsfundum lofar að flokkurinn styðji alþýðu Venesúela í baráttu hennar við bandaríska heimsvaldastefnu.

Og hvað með lýðræðið í okkar flokki. Stefna okkar er ekkert til að makka um í ríkisstjórninni, eða í þingflokknum. Ég sem félagi í flokknum, reyndar stofnfélagi, krefst þess að flokksforystan útskýri athafnir sínar á félagsfundi, og taki þátt í því með öðrum flokksfélögum að móta stuðningsyfirlýsingu með Venesúela. 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: