Ragnar Önundarson bankamaður skrifar fína grein í Moggann í dag. Þar slær hann vopnin úr höndum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Bjarni hefur aftur og aftur sagt, þegar hann freistar þess að rökstyðja söluna á Íslandsbanka, að bankaeigninni fylgi of mikil áhætta.
Ragnar skrifar:
„Nú heyrir maður síendurtekið, að bankastarfsemi sé svo áhættusöm að ríkið eigi að losa sig við hana. Ríkið situr uppi með áhættuna hvort sem er! Ríkið kemur til bjargar með fjármunum almennings, ef áföll verða, reynslan sýnir það. Þingflokkar eiga að gera þverpólitíska sátt um eignaraðild banka, sem stuðlar að fjármálastöðugleika og friði um þá. Bankar eiga að þjóna almenningi og samfélaginu, ekki forréttindafólki. Til þess að svo verði þurfa almenningur og stofnanir hans að eiga ráðandi hluti í þeim. Svonefndir kjölfestufjárfestar eiga ekki að fá aftur forgang, það er fullreynt. Þjóðin, sem þráir það mest að vera öðrum þjóðum fyrirmynd, yrði aðhlátursefni um allan heim.“