Einkaþjálfarinn og sálfræðiingurinn, Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, hraunar yfir áhrifavaldinn og raunveruleikastjörnuna Kim Kardashian í nýrri færslu á Facebook. Hún segir stjörnuna senda stórhættuleg skilaboð til ungra kvenna.
Kim toppaði sig enn á ný þegar hún mætti á Met Gala viðburðinn sem var haldinn var í New York. Hún mætti með aflitað hár, sem var sleikt aftur og kjóllinn sem hún klæddist var rosalegur. Hann var gylltur á litinn, níþröngur og á merkilega sögu.
Kjóllinn var eitt sinn í eigu Marilyn Monroe og var hún klædd i kjólinn þegar hún söng „Happy birthday dear president“ fyrir hann 19. maí árið 1962. Safnið „Ripley’s Believe It Or Not“ hefur haft kjólinn undir sínum verndarvæng en hann kostaði safnið 4.8 milljónir bandaríkjadollara 2016 og hefur enginn annar kjóll farið á hærra verði.
Ragga var ekki hrifinn af uppátæki áhrifavaldsins sem þurfti að losa sig skyndilega við 8 kíló til að komast í kjólinn. Af því tilefni ritar hún eftirfarndi pistil:
„Því fylgir ábyrgð að vera áhrifavaldur.Sérstaklega stærsti áhrifavaldur heims eins og Kim Kardashian. Að stæra sig af vafasömum og óheilbrigðum aðferðum fyrir eldsnöggt þyngdartap, í þeim eina tilgangi að smokra sér í kjól af látinni stjörnu, er stórkostlega óábyrgt og sendir stórhættuleg skilaboð til ungra kvenna.Í fyrsta lagi að virði þitt sé falið í útlitinu
Í öðru lagi að normalísera óheilbrigt samband við matÍ þriðja lagi að þinn líkami eigi að passa í spjörina, en ekki spjörin að passa á þig. Drastískar aðgerðir á borð við að kjamsa aðeins á tómötum og svitna í hitagalla í þrjár vikur og skafa af sér átta kíló af vökva, vöðvum og hugsanlega oggulítilli fitu, mun hafa langvarandi afleiðingar fyrir hormónakerfið, grunnbrennsluna og efnaskiptin.
Þróunarsagan okkar hefur gert líkamann að aðlögunarmaskínu. Þegar ekki nóg að bíta og brenna fer hann í tímavélina aftur um þúsundir ára og upplifir hungursneyð sem þýðir að nú þarf að spara orkuna.Hann lagar sig að kroppuðum horuðum máltíðum sem hann telur vera ógn með að hægja á grunnbrennslunni niður í fyrsta gír.
Að lifa af er alltaf fyrsta markmið líkamans og þá verður hann hagsýnn með hitaeiningar…. eitthvað sem þú vilt ALLS EKKI. Vöðvar eru mjög orkufrekur vefur og þegar ekkert er að koma inn í kastalann, þá yfirgefa þeir bygginguna og lækka grunnbrennsluna í kjölfarið. Hangs á horriminni og lífsnauðsynleg orkuefni prótín og fita skorin niður við nögl getur verið katastrófa fyrir hormónastarfsemi kvenna.
Skjaldkirtillinn verður miður sín og framleiðsla á T3 og T4 (þýroxín) fer í fýlu. Skjaldkirtillinn seytir út þýroxíni sem stýrir meðal annars efnaskiptum líkamans, nýtingu á glúkósa sem orku, niðurbroti á fitu, nýmyndun prótína. Skjaldkirtillinn ber ábyrgð á stórri sneið af daglegri hitaeininganýtingu líkamans sem kallast TDEE (total daily energy expenditure). Sem þýðir að örfáar hitaeiningar á dag veldur því að skjaldkirtillinn hægir á sér og verður vanvirkari. Líkaminn skynjar ógn því engar hitaeiningar eru að koma inn í maskínuna. Kortisólið er þess vegna stöðugt í blússandi keyrslu sem hefur áhrif á blóðsykursjafnvægi, fitusöfnun á kvið, þarmaflóran fer í flækju með niðurgangi eða harðlífi og hærri blóðþrýsting.
Afleiðingar af svona endemis bulli er lækkuð grunnbrennsla, síþreyta, vöðvaverkir, heilaþoka, brenglun á tíðahring, hárlos, minnisleysi, hausverkur, svefnleysi og almennt áhugaleysi. Að komast í örþunnan galgopakjól í eina kvöldstund er ansi dýru verði keypt þegar heilsa og vellíðan eru annars vegar.“