Vilhjálmur Birgisson skrifar:
En með þessari þróun sem virðist vera komin af stað í orkugeiranum þá mun það jafnvel heyra sögunni til að sá ávinningur sé til staðar milli okkar og samanburðalanda ef þessi þróun fær að halda áfram.
Það er sorglegt að sjá að Veitur sem eru í eigu Orkuveitu Reykjavíkur ætli ekki að taka þátt í þeirri vegferð að halda aftur af gjaldskrám til að ná niður verðbólgu og skapa alvöru skilyrði fyrir lækkun vaxta.
Það er mikilvægt að muna að stjórnvöld og sveitarfélög skuldbundu sig til að halda aftur af gjaldskrárhækkunum á samningstímanum og hækka t.d. gjaldskrár ekki um meira en 3,5% á þessu ári og ríkið hefur gefið út að gjaldskrár muni ekki hækka um meira en 2,5% á næsta ári.
Nú hafa Veitur tilkynnt um enn eina gjaldskrárhækkunina og tók hún gildi 1. ágúst en rétt er að minna á að gjaldskrár Veitna hækkuðu einnig 1. janúar 2024.
En 1. janúar hækkaði rafmagn um 3,2% og flutningsgjald um 13% en rétt er að geta þess að það gjald tilheyrir Landsneti. En samanlagt hækkaði rafmagnkostnaður því 1. janúar um 16,2% og núna kom önnur hækkun á rafmagni frá Veitum sem gildir frá 1. ágúst og nam sú hækkun 10,7%.
Þetta þýðir að rafmagn með flutningsgjaldi til neytenda sem eru í viðskiptum við Orkuveitu Reykjavíkur hefur hækkað frá áramótum um 26,9%.
Frá áramótum hefur heita vatnið hækkað um 6,52% og kalda vatnið um 5,63% en þessar hækkanir eru ekki í anda þess sem verkalýðshreyfingin taldi sig hafa loforð um, að allir myndu halda aftur af gjaldskrárhækkunum til að vinna bug á verðbólgunni.
En hver eru rök Veitna fyrir þessum hækkunum sem eru ekki í neinum takti við þá stefnu sem lýtur að því að halda aftur af verðlagshækkunum og þjónustu- og gjaldskrárhækkunum til að styðja við langtíma kjarasamninga þar sem samið var með hófstilltum hætti?
Svarið er að finna inni á heimasíðu Veitna en þar segir orðrétt:
Af hverju er verið að gera þessar breytingar á gjaldskrám?
„Nauðsynlegt er að gera breytingar á verðskrám til að standa undir eðlilegu viðhaldi sem og nýframkvæmdum svo hægt sé að tryggja rafmagn fyrir orkuskipti og örugga afhendingu vatns til allra,” segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.“
Þessi rök standast ekki nokkra skoðun enda afkoma Orkuveitu Reykjavíkur verið mjög góð á liðnum árum. Vandamálið liggur í því að eigendur Orkuveitu Reykjavíkur soga allan hagnað til sín í formi arðgreiðslna en á þessu ári tóku eigendur Orkuveitunnar 6 milljarða í arðgreiðslur sem er 94% af hagnaði OR.
Þetta er algjörlega galið að sveitarfélögin sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð skuli taka til sín 94% af hagnaði og svo er sagt það þarf að hækka gjaldskrár til að standa m.a. undir eðlilegu viðhaldi sem og nýframkvæmdum.
Ég skal fúslega viðurkenna að stjórnendum Orkuveitu Reykjavíkur er vorkunn að vera með eigendur sem öskra á arðgreiðslur eins og enginn sé morgundagurinn og taka síðan 94% af hagnaði í formi arðgreiðslna til sín.
Hvernig á að vera hægt að reka þetta fyrirtæki ef það á að vera hlutverk Orkuveitunnar að vinna bug á slæmri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og ég spyr hvað hafa eigendur OR lagt inn í þetta fyrirtæki sem réttlætir svona arðgreiðslur sem bitna síðan á viðskipta“vinum“ OR?
Mér sýnist að það stefni í sömu græðgisvæðinguna í orkugeiranum og hefur fengið að þrífast hjá fjármálakerfinu en raforka og hitaveitan hefur nánast verið það eina sem við höfum haft betra en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
En með þessari þróun sem virðist vera komin af stað í orkugeiranum þá mun það jafnvel heyra sögunni til að sá ávinningur sé til staðar milli okkar og samanburðalanda ef þessi þróun fær að halda áfram.
Þetta er sturlað hvernig „allir“ halda að hægt sé að sækja meira og meira fé í vasa einstaklinga og heimila.
Það er til skammar að Orkuveita Reykjavíkur ætli ekki að taka þátt með okkur í verkalýðshreyfingunni í að vinna bug á verðbólgunni og ég skora á OR að afturkalla þessar hækkanir og ég skora á eigendur Orkuveitu Reykjavíkur að krefja fyrirtækið um 94% af hagnaði OR til að standa undir hallarekstri sveitarfélaganna. Þessar gjaldskrárhækkanir eru bara enn ein skattpíningin sem almenningur, heimili og fyrirtæki verða fyrir!