Fréttir

Rafiðnaðarmenn stefna í verkfall

By Miðjan

August 28, 2020

„Nú er ljóst að þolinmæði starfsfólks og fulltrúa þeirra er á þrotum og ljóst er að ekki eru líkur á því að samningar náist nema með því að starfsfólk grípi til verkfallsaðgerða. Það verður ekki við það unað að fyrirtækið og Samtök atvinnulífsins haldi viðræðunum í frosti, án þess að nægur vilji sé til þess að ljúka gerð samnings. Því er ljóst að atkvæðagreiðslur um boðun verkfalls félaga RSÍ mun hefjast í lok vikunnar þar sem kosið verður um að leggja niður störf í byrjun desember (í samræmi við ákvæði kjarasamningsins).“

Þetta er niðurstaða Rafiðnaðarsambandsins vegna viðræðna við Norðurál vegna kjarasamnings.

Fundur með félagsmönnum RSÍ og FIT var haldinn á Akranesi. „Fundurinn var vel sóttur. Á fundinum var farið yfir stöðu kjaraviðræðna við Norðurál en þrátt fyrir gríðarlegan fjölda funda hefur enn ekki tekist að ganga frá kjarasamningi til þess að tryggja starfsfólki réttmætar launahækkanir. Samkvæmt kjarasamningnum er svigrúm starfsfólks og verkalýðsfélaganna takmarkað hvað varðar að beita verkföllum til að ná fram sanngjörnum kjarasamningi. Boða þarf aðgerðir með mjög löngum fyrirvara og því er ljóst að langt og strangt ferli er framundan.“