Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir stöðu dómsmálaráðherra ekkert hafa breyst við dóm héraðsdóms í gær, þar sem ríkið var dæmt til að greiða bætur þeim umsækjendum sem metnir voru hæfir, en ráðherra skipaði ekki í Landsrétt. Þetta sagði hann í fréttum RÚV.
Nú er frekar ástæða til að spyrja hvort staða Bjarna hafi breyst. Eftir afhjúpun Stundarinnar getur varla annað verið en hið minnsta tvær grímur renni á flokksfélaga þeirra Bjarna og Sigríðar.
Bjarni hefur um árabil verið valdamesti maður samfélagsins. Á því er ekki nokkur vafi. En hvort hann sé í dag réttur maður til að svara um stöðu Sigríðar Á. Andersen hlýtur að vera álitamál.
Staða Bjarna getur ekki annað en verið afleit. Hér eru tvö sýnishorn af umfjölunnar Stundarinnar:
„Bjarni Benediktsson var í raun höfuð fjárfestahóps sem samanstóð af stærstu og sterkustu hluthöfum Íslandsbanka um árabil og allt fram til vorsins 2007 og þessi hópur var einn stærsti lántakandi bankans. Rétt eins og Jón Ásgeir Jóhannesson varð síðar það sem kallað hefur verið „skuggastjórnandi“ yfir Glitni, maður sem í reynd réði öllu og stýrði öllu í bankanum á bak við tjöldin, þá virðist Bjarni hafa verið í sams konar hlutverki í fjárfestahópi fjölskyldu sinnar, maðurinn sem kom auga á viðskiptatækifæri og kom þeim á koppinn, eins og kaupunum á Esso, eða reyndi það eins og í tilboðsgerðinni í Toyota-umboðið, og stýrði svo þessum fjárfestingum.“
Og hér frá tölvupóstsamskiptum nafnanna Bjarna Ben og Bjarna Ármannssonar, þá bankastjóra.
„Takk fyrir síðast, gaman að þið skilduð koma í Garðabæinn. Við sem að þessu stóðum vorum mjög ánægðir með kvöldið. Aðalerindið er hins vegar að óska þér og þínu fólki til hamingju með glæsilegan árangur á síðasta ári. Framúrskarandi niðurstaða. Nú er að koma fram nýtt frumvarp til breytinga á lögum um verðbréfaviðskipti. Þar verður m.a. komið inn á þau atriði sem við ræddum varðandi upplýsingagjöfina hjá FME. Ekki hika við að senda á mig athugasemdir eða ábendingar varðandi það mál þegar fram í sækir eða önnur sem snerta þetta svið.“
Síðustu setningarnar eru geggjaðar. Þá segir áhrifamikill þingmaður, Bjarni Ben, við bankastjórann: „Nú er að koma fram nýtt frumvarp til breytinga á lögum um verðbréfaviðskipti. Þar verður m.a. komið inn á þau atriði sem við ræddum varðandi upplýsingagjöfina hjá FME. Ekki hika við að senda á mig athugasemdir eða ábendingar varðandi það mál þegar fram í sækir eða önnur sem snerta þetta svið.“
Ísland er ekki svo rotið að nýjustu fréttir geri ekki meira en að hreifa við þeim Bjarna og Sigríði.