- Advertisement -

Ræða kvöldsins: Við eigum bara eitt líf

Það er manngert ástand sem hefur bein áhrif á líðan ungmenna og við getum brugðist við.

Helga Vala Helgadóttir flutti skínandi ræðu á Alþingi í kvöld. Ræða hennar var nánast góð fréttaskýring. Miðjan hefur fengið ræðuna til birtingar:

Við eigum bara eitt líf. Á meðan á því stendur er það okkar að gera sem best úr því, nýta styrkleika okkar en leita aðstoðar vegna veikleika ef einhverjir eru.

Þegar á reynir erum við merkilega samstíga. Þessa dagana er hið árlega átak, á allra vörum í gangi og að þessu sinni snýr það að þjóðarátakinu eitt líf. Eitt líf er mögnuð barátta fjölskyldu Einars Darra sem lést aðeins 18 ára gamall vegna lyfjaeitrunar. Hann hafði ekki átt sér neina sögu um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum eða fíkniefnum og því kom andlát hans fjölskyldu og vinum algjörlega í opna skjöldu.

Tíunda hvert barn á sama aldri fékk ávísað örvandi lyfi og er það fjölgun um 14%.
Mynd: Matthew T Rader / Unspalsh.

En örlög Einars Darra eru ekki einsdæmi. Á síðasta ári létust 39 einstaklingar vegna lyfja eða fíkniefnanotkunar og í ágúst sl voru andlátin orðin 23 sem til rannsóknar eru. Það er staðreynd að neysla hérlendis á tauga og geðlyfjum er töluvert meiri en í nágrannaríkjum okkar og erum við hér að tala um þau lyf sem er ávísað af læknum, ekki þau sem flutt eru inn ólöglega. Sem dæmi, þá nota 10% allra barna og unglinga geðlyf að staðaldri. Árið 2018 jókst neysla 10-14 ára barna á ávísuðum svefnlyfjum um rúm 20% og eru nú 670 börn sem nota slík lyf að staðaldri. Tíunda hvert barn á sama aldri fékk ávísað örvandi lyfi og er það fjölgun um 14%. Eru þau þrefalt fleiri en í Svíþjóð sem næst okkur koma af norðurlöndum. Ef við tökum svo fullorðna með í reikninginn notum við 30% meira af þessum lyfjum en Svíar.

Herra forseti – Hvers vegna er þetta svona og er þetta eitthvað náttúrulögmál á Íslandi?

Í skýrslu velferðarráðuneytis frá því í maí 2018 segir að gera megi ráð fyrir að þróun samfélags og heilbrigðiskerfis á síðastliðnum áratugum eigi þátt í að skapa væntingar og menningu sem lítur á lyf sem lausn margra vandamála og leitt hefur til mikillar aukningar á notkun þeirra. Með öðrum orðum, við bjuggum til þetta ástand. Við bjuggum til það ástand að betra sé að gefa lyf en að eiga samtal við fagaðila í von um betri líðan. Sálfræðitíminn kostar enn þá 17000 krónur á meðan örvandi og slæfandi lyf ganga kaupum og sölum á skólalóðum og á netinu. Ekki misskilja mig, lyf eru nauðsynleg en notkun okkar á þeim er að mínu mati óeðlilega mikil.


…virðast stjórnvöld ekki reiðubúin að vinna í þessum lausnum.

Ný rannsókn meðal grunnskólanema sýnir að þættir eins og góð andleg líðan, að foreldrar viti hvar börn sín eru á laugardagskvöldum, samverustundir fjölskyldu, tómstundaþáttaka og fleira fara þverrandi. Það er manngert ástand sem hefur bein áhrif á líðan ungmenna og við getum brugðist við, til dæmis með því sem við í Samfylkingunni höfum talað fyrir og tekið undir með verkalýðshreyfingunni sem er stytting vinnuvikunnar. Stjórnvöld hafa svarað þeirri kröfu með því að launþegar afsali sér matar og kaffitímum í skiptum fyrir styttingu vinnuviku sem er óásættanlegt á sama tíma og reynslan af styttingu vinnuviku sýnir að framleiðni eykst sem og starfsánægja og almenn vellíðan.  Ánægt fullorðið fólk verður svo aftur að betri foreldrum og uppalendum. Foreldrar sem hafa meiri tíma með börnum sínum veita meira aðhald.

Á sama tíma og áðurnefndar tölur um vanlíðan og kvíða barna og ungmenna rjúka upp og lyfjanotkun eykst virðast stjórnvöld ekki reiðubúin að vinna í þessum lausnum. Afnema á vaktaálag hjúkrunarfræðinga við Landspítala svo dæmi sé tekið til að mæta aðhaldskröfu stjórnvalda, stytting vinnuviku er notuð sem skiptimynt í kjarasamningum við stjórnvöld og við ávísum enn fleiri kvíða og þunglyndislyfjum.

Á vorþingi 2018 ræddum við um vímuefnameðferðir ungmenna, sem þá þótti óverjandi að væru inni á Vogi vegna samskipta barna við eldri fíkla. Kom fram í ræðu og riti hæstvirts heilbrigðisráðherra, meðal annars í febrúar sl að Landspítalinn myndi innan sex mánaða taka við vímuefnameðferðum þessa hóps. Í samtali mínu við fulltrúa LSH í morgun kom í ljós að það var víst aldrei ætlunin, að minnsta kosti var landspítala aldrei tilkynnt um það. Þeirra var að taka á móti einu til þremur börnum af Stuðlum sem ættu við hvað bráðasta heilsufarsvanda að etja vegna fráhvarfa. Kom fram í máli hæstvirts ráðherra að bara þyrfti að breyta húsnæði og ráða í stöður og þá yrði bara keyrt í gang. Ekkert slíkt hefur hins vegar átt sér stað né virðist í bígerð. Deild var lokað á geðsviði í sumar í sparnaðarskyni og vegna manneklu en ekkert bólar á boðaðri meðferðardeild fyrir ungmenni, en í fyrra innrituðust 581 einstaklingur undir 30 ára í fyrstu meðferð á vogi, þar af 70 undir 20 ára. (Svona ætlar ríkisstjórnin að taka á bráðum fíknivanda barnanna okkar og ungmenna.)

Hann Einar Darri átti bara eitt líf, rétt eins og við hin, en við getum ekki sem samfélag látið þetta ganga svona lengur. Loforð um breytingar verður að efna og þar skora ég á stjórnvöld að gera miklu miklu betur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: