„Fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu var – þrátt fyrir mótmæli – gert skylt, samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál, að afhenda félaginu Frigus II ehf. reikninga frá lögmannsstofunni Íslögum ehf. án þess að afmáðar væru upplýsingar um tímagjald, tímafjölda og það tímabil sem vinna Íslaga fór fram. Ráðuneytið hafði, eftir ítrekaðar beiðnir, áður látið gögnin af hendi en þá var búið að afmá umræddar upplýsingar. Þegar ráðuneytið afhenti reikningana aftur, þá með tímagjaldi og tímafjölda, var þó búið að afmá upplýsingar um tímabilið sem vinna Íslaga fór fram,“ þetta er úr forsíðufrétt viðskiptakálfs Moggans í dag.
„Samkvæmt gögnum sem ViðskiptaMoggi hefur undir höndum hefur úrskurðarnefndin staðfest að afhending ráðuneytisins á gögnunum samræmist ekki úrskurði hennar,“ segir næst í fréttinni.
Næst segir: „Í þeim samskiptum sem úrskurðarnefndin átti við ráðuneytið kemur einnig í ljós að engar tímaskýrslur fylgdu reikningunum, en þar eru tilgreindir um 460 seldir tímar.“
Þetta er hreint ótrúlegt. Þetta er stórfrétt. Hvað er verið að fela?
„Íslög eru í eigu Steinars Þórs Guðgeirssonar lögmanns. Áður hefur verið fjallað um þann mikla kostnað sem fjármálaráðuneytið, Seðlabankinn og Lindarhvoll (sem er í eigu ríkisins) hafa greitt Íslögum vegna vinnu stofunnar fyrir fyrrnefnda aðila. Viðskiptablaðið greindi frá því sumarið 2021 að stofan hefði fengið tæplega 240 milljónir greiddar frá árinu 2018, en kostnaðurinn hefur hækkað síðan þá. Samkvæmt vefsíðunni opnirreikningar.is hefur fjármálaráðuneytið eitt og sér greitt Íslögum um 30 milljónir króna frá 2021. Við nánari athugun sést að Íslög hafa fengið meginþorrann af öllum greiðslum ráðuneytisins vegna lögfræðiráðgjafar á liðnum árum.“
„Við lauslegan útreikning ViðskiptaMogga má ætla, miðað við það tímagjald og þann afslátt sem fram kemur á reikningunum eftir að þeir voru afhentir í annað sinn, að vinnustundir Íslaga fyrir ráðuneytið telji um 3.500 klst. frá árinu 2018. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort tímaskýrslur hafi fylgt þeim reikningum sem sendir voru,“ segir í fréttinni.