- Advertisement -

Ráðinn í vinnu í einn til þrjá mánuði í senn

Texti og mynd Alda Lóa: „Starf mitt er það sama hérna á Íslandi og heima í Glaibiba í Litháen, ég keyri vinnuvélar. Í þetta sinn hef ég starfað fyrir sama verktaka á Íslandi í eitt ár og tvo mánuði en alltaf á eins til þriggja mánaða samning í gegnum Elju, þeir sköffuðu mér vinnuna og húsnæðið.

Reyndar veit ég ekki hvernig vinnumálin mín standa eftir frí í Litháen sem ég tek mér eftir tvær vikur. Það á eftir að koma í ljós en allavega kem ég aftur til Íslands og held vonandi þessari vinnu eða finn mér aðra.

Þetta er ekki auðvelt líf, að vera farandverkamaður, þar sem fjölskyldan mín er öll í Litháen. Kærastan mín kom í heimsókn í sumar og henni fannst allt of kalt og hráslagalegt hérna en það rigndi að vísu allan tímann. Hún er allavega ekki að flytja til Íslands í bili. Sumrin eru mjög heit í Litháen en aftur á móti kaldir vetur, að vísu fara þeir hlýnandi með hverju ári sem er vegna loftslagsbreytinga. Áður fyrr fór kuldinn á veturna oftast niður í mínus tuttugu gráður en síðastliðin ár hefur hann aðeins farið niður í mínus tíu gráður.

Ef ég á frídag hérna í vinnunni og þarf að finna mér eitthvað annað að gera, þá renni ég oftast fyrir þorsk eða makríl í sjónum með fram Reykjanesi. Ég kem mér til Keflavíkur, Grindavíkur eða út í Garð. Ég hitti meira að segja Íslending um daginn sem veiddi ufsa, en þetta er samt aðallega við sem erum ekki alin hér upp og komum annars staðar frá, við sem stöndum á hafnarbakkanum og veiðum á stöng. Það er sæla að veiða sér fisk í soðið.“

Arunas Sadauskis er vinnuvélamaður og félagi í Eflingu.
#fólkiðíeflingu Sjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: