Ráðherrarnir hunsa öryrkja

Ályktun
stjórnar ÖBÍ 30. apríl 2020

Stjórn
Öryrkjabandalags Íslands hvetur ríkisstjórnina til að falla nú ekki í gamlar
skotgrafir í baráttunni sem framundan er við efnahagslegar afleiðingar Covid-19
faraldursins. Engan má skilja eftir í fátækt, hvað þá sárafátækt. Í kjölfar
fjármálakreppunnar árið 2008 var gengið svo langt í niðurskurði í
velferðarkerfinu, að skaðinn sem varð er enn óbættur.

Þær
fordæmalausu aðstæður sem við lifum nú, kalla á nýja hugsun og nálgun við
viðfangsefnin, þar sem velferð fólks verður að vera í fyrirrúmi. Með hækkun
örorkulífeyris til samræmis við lágmarkslaun, vinnum við okkur hraðar út úr
þeim þrengingum sem nú blasa við.

 Aðgerðir
ríkisstjórnarinnar sem þegar eru ljósar, ná lítið sem ekkert til öryrkja.
Sinnuleysi síðasta áratugar um kjör öryrkja má ekki halda áfram í skjóli
núverandi kreppu. Það er því brýnt að grípa strax til þeirra aðgerða sem forða fólki
frá sárri fátækt og er eðlileg krafa á ríkisstjórn sem í samstarfssáttmála
sínum ætlaði að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Nú
munar um 80 þúsund krónum á örorkulífeyri og lágmarkslaunum og útlit er fyrir
að kaupmáttur lífeyris minnki enn frekar, eftir að hafa nánast staðið í stað á
kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar. Þetta má ekki gerast í því verðbólguskoti
sem nú ríður yfir.

 Í
rúmt ár hefur samtal við ráðherra forsætis-, fjármála- og félagsmála engu skilað og í ár hafa sömu
ráðherrar ekki orðið við beiðni Öryrkjabandalagsins um fundi.
Ríkisstjórn sem vinnur að útrýmingu fátæktar verður að horfast í augu við
vandamálið og hefja viðræður við okkur nú þegar um lausn vandans. Lausn sem ekki getur falist í
öðru en lífeyri sem tryggir mannsæmandi líf.

Tími
efnda er núna.

Greinargerð:

Í okkar hópi er viðkvæmasta fólkið í samfélaginu. Fólk sem er viðkvæmt
fyrir líkamlega, sálrænt, félagslega og fjárhagslega. Ástandið bitnar illa á
mörgum sem eru með undirliggjandi langvinna sjúkdóma, kvíðaraskanir, einhverfu,
ADHD svo fátt eitt sé nefnt. Margir hafa brugðið á það ráð að fara í
sjálfskipaða einangrun til að verjast veirunni.

  1. Í einangrun verður allt
    erfiðara. Heilsufarsáhyggjur og félagsleg einangrun hefur mikil áhrif á geð
    fólksins en ekki síður fjárhagurinn. Allir aðdrættir verða dýrari  og erfiðir. Framfærslulífeyrir verður verri
    og var bágur fyrir. Matarkostnaðurinn eykst, tekjur til annarra hluta minnka.
    Margir sjá fram á að þurfa að velja milli nauðsynja þ.e. læknisþjónusta eða
    matar, lyfja eða leigu. Í sumum tilfellum bitnar ástandið einnig á börnum og
    skerðir lífsgæði þeirra.

Aðgerðir verða að
koma til, er styrkja efnahag fólksins og hækka þarf framfærslulífeyri!  Þá er upplagt að stíga fyrr þau skref sem
áformuð hafa verið varðandi aukna kostnaðarþátttöku hins opinbera í
heilbrigðisþjónustu, þar með talið tannlækningum, lyfjum og endurhæfingu. Að
auki er mikilvægt að fólk fái handleiðslu á félagslegum og fjárhagslegum grunni
þegar ástandinu linnir.

Kynna þarf
sérstaklega og á vandaðan hátt aðgengi fólks að úrræðum sem draga úr hættu á að
viðkvæmir hópar fólks einangri sig. Oftast sökum ótta, kvíða eða efnahagslegra
erfiðleika. Hlutir sem voru erfiðir fyrir verða óbærilegir í ástandi eins og nú
varir.