Gunnar Smári skrifar:
Fram að þessu hefur þjóðin staðið einhuga á að baki ríkisstjórninni í sóttvarnaaðgerðum. Mælingar hafa sýnt að aðeins örsmár minnihlutahópur hefur sett sig upp á móti þeim. Nú hafa orðið vatnaskil. Ástæðan er að ríkisstjórnin sneri af þeirri braut sem sóttvarnayfirvöld lögðu til, sóttvarnayfirvöld sem almenningur hefur hingað til stutt vegna þess að þau yfirvöld hafa gætt þess að leggja aðeins það til sem almenningur sættir sig við, vitandi að það er eina færa leiðin í lýðræðisríki.
Ríkisstjórnin er hins vegar ekki á því; hún ætlar að selja Íslandsbanka þvert á vilja mikils meirihluta landsmanna, styðja eignarhald örfárra á auðlindum sjávar þvert á vilja þjóðarinnar, hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá og svo framvegis. Ríkisstjórnin fer gegn vilja almennings í svo til öllum málum. Og nú líka í sóttvarnamálum, þar sem henni auðnaðist að fylgja ráðleggingum hinna vitru sóttvarnayfirvalda fram að þessu.
Hvergi í okkar heimshluta eru stjórnvöld að beita annarri stefnu í sóttvörnum en almenningur sættir sig við. Ástæðan er að við erum öll sóttvarnir og sóttvarnir sem almenningur er ekki sáttur við munu ekki virka. Aðeins íslensk stjórnvöld láta sér detta slík vitleysa í hug.
Fyrir skömmu, meðan svo leit út að ríkisstjórnin vildi fara sömu leið og sóttvarnayfirvöld, var spurt í könnunum hvort fólk vildi harðar sóttvarnir á landamærunum. Yfirgnæfandi meirihluti kaus það. Nú er hlutfallið 2/3 á móti 1/3. Jafnvel sú ríka tilhneiging að standa með stjórnvöldum á hættutímum nær ekki að slá niður afstöðu almennings. Almenningur er viljugur í að ganga langt í að fylgja stjórnvöldum á válegum tímum, vitandi að þá er ekki alltaf tilefni til að deila. En samkvæmt þessari könnun er mikill meiri hluti fólks aðeins til í að fylgja ríkisstjórninni ef hún fylgir sóttvarnayfirvöldum og vilja almennings. Þegar Sigríður Á Andersen, Brynjar Níelsson og slíkt fólk er farið að hafa meiri áhrif á stefnu stjórnvalda en sóttvarnalæknir þá gefst almenningur upp á fylgispektinni.
Ráðherrarnir eru nú á neyðarfundi, um neyð sem er þeirra eigið sköpunarverk. Það mun koma í ljós eftir fundinn hvort ríkisstjórnin ætli að fara gegn vilja almennings í sóttvörnum eins og ríkisstjórnin gerir í svo til öllum öðrum veigamiklum málum.