Ráðherrar vilja aðstoða loðdýrabændur
Gunnar Bragi Sveinsson spurði Kristján Þór landbúnaðarráðherra hvort hann hyggist koma til móts við loðdýrabændur, sem hafa mætt mikilli verðlækkun loðskinna, og eiga þess vegna í miklu basli með búskapinn.
„Ég ítreka að við erum ekki komin að neinni niðurstöðu um hvort eða hvernig hægt væri að bregðast við. Málið er til umræðu, númer eitt, tvö og þrjú. Þá yrði það á slíkum forsendum hvort unnt væri að brúa einhvern tíma sem greininni yrði gefinn til að koma undir sig fótum á ný,“ sagði Kristján Þór og sagði einnig að hann og Sigurður Ingi, sem er byggðamálaráðherra, hafi fundað um stöðuna.
„…þegar best lét var þetta gríðarlega öflug grein og mikil velta, en það hefur kvarnast mjög ört úr þeim sem stunda þetta á síðustu árum. Til dæmis voru fimm burðarstólpar á síðasta ári sem hættu í loðdýrarækt vegna þess einfaldlega að þeir sáu ekki út úr augum fyrir vanda í rekstri. Þá standa eftir 17–18 bú sem verið er að ræða möguleika á hvort og þá hvernig væri hægt að mæta á einhvern tímabundinn hátt,“ sagði landbúnaðarráðherra.