Reglunum er bara breytt svo að þær endurspegli betur raunveruleika meðlima Flokksins.
Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Hugmyndir ráðherra um sóttvarnir eru þannig að þær virðast vera akkúrat andstæðan við hugmyndir okkar almúgans. Almúginn hefur talið að það fólk sem ekki hittist oft skuli passa sérstaklega vel upp á 2 metra regluna en í veröld Sjálfstæðisflokksins er það svoleiðis að fólkið sem býr langt frá hvort öðru og hittist sjaldan á að vera mjög nálægt hvort öðru. Eina reglan er þá að taka ekki mynd af hinni innilegu nánd.
En ekki að það skipti nokkru einasta máli, eins og öll á þessu landi vita gera ráðherrar Sjálfstæðisflokksins auðvitað bara nákvæmlega það sem þeim sýnist hverju sinni. Og það hefur nákvæmlega engar afleiðingar. Fyrir þau. Reglunum er bara breytt svo að þær endurspegli betur raunveruleika meðlima Flokksins.
Þetta getur verið ruglandi fyrir okkur hin sem ekki höfum fengið Valhallar-þjálfunina í raunveruleikaskynjun og afstöðu en um það þýðir ekkert að þusa. Við þurfum bara enn á ný að tölta útí apótek og kaupa okkur sjóveikitöflur.
„Vegna þess að þetta eru æskuvinkonur mínar sem ég hitti ekki oft. Við búum í mismunandi bæjarfélögum og lifum okkar lífi.“