„Margir ráðherrar virðast hreinlega óttast þetta heimaríka fólk og láta því undan því, þegar taka þarf ákvarðanir eða hrinda þegar teknum ákvörðunum í framkvæmd.“ Það er Jón Steinar Gunnlaugsson sem skrifar þetta í Moggann í dag.
Hann segist hafa, í starfi sínu sem lögmaður, komist að raun um; „…að í landinu hafa starfandi embættismenn í stjórnarráðinu og ýmsum öðrum stofnunum ríkisins miklu meiri völd en stjórnskipun okkar gerir ráð fyrir.“
„Með sanni má segja að þessi hópur sé eins konar ríki í ríkinu. Fjölmörg dæmi eru um að þeir hreinlega stjórni í bága við vilja og fyrirmæli yfirmanna sinna, sem eru auðvitað ráðherrarnir sjálfir. Margir ráðherrar virðast hreinlega óttast þetta heimaríka fólk og láta því undan því, þegar taka þarf ákvarðanir eða hrinda þegar teknum ákvörðunum í framkvæmd.“
„Ég leyfi mér því að skora á forystumenn í stjórnmálum að taka nú höndum saman um umbætur með lagasetningu á þessu málasviði. Þær myndu snerta hagsmuni þeirra allra. Þeir gætu því sett til hliðar hanaslaginn milli flokkanna, þegar þeir tækju höndum saman um að sinna þessu verðuga verkefni,“ skrifar Jón Steinar í lok greinarinnar, sem er mun lengri en það sem birtist hér.