Úr leiðara Moggans í dag:
„Ríkislögreglustjóri hélt áfram að benda á þetta, til dæmis í skýrslu frá árinu 2019 þar sem meginniðurstaðan var að „áhætta vegna helstu brotaflokka skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi fari enn vaxandi. Samkvæmt áhættulíkani löggæsluáætlunar er niðurstaðan „gífurleg áhætta“ við mat á skipulagðri glæpastarfsemi.“ Lokaorð þeirrar skýrslu eru þessi: „Fyrirsjáanleg þróun, að óbreyttu, er á þann veg að umfang skipulagðrar glæpastarfsemi aukist á Íslandi. Aukin samkeppni á milli skipulagðra brotahópa kann að leiða til gengjamyndunar og grófra ofbeldisverka gagnvart einstaklingum sem þeim tengjast. Ástæða er til að óttast aukið og fjölbreyttara framboð fíkniefna. Hið sama á við um tilfelli mansals og misneytingar gagnvart innflytjendum og erlendu vinnuafli.“
Því miður hefur komið á daginn að aðvörunarorð ríkislögreglustjóra áttu fullan rétt á sér en á þau var ekki hlustað. Í það minnsta var ekki brugðist við eins og hefði þurft að gera og skýrir það án efa, í það minnsta að hluta til, þá þróun sem orðið hefur.“
Þarna er bent á tvö höfuðráðuneyti Sjálfstæðisflokksins, dómsmála- og fjármálaraðuneyti. Flokkurinn hefur stýrt þeim báðum í langan tíma.
Leiðarinn endar svo svona: „Vonandi er að verða breyting á viðhorfi hjá þeim sem fara fyrir þessum málaflokkum hjá hinu opinbera og er boðað frumvarp dómsmálaráðherra til marks um að svo sé. Með því er ætlunin að lögreglan fái auknar heimildir til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi, sem er löngu tímabært. Um leið er nauðsynlegt að lögreglan hafi bolmagn til að sinna auknum verkefnum og það verður ekki nema með fjölgun lögreglumanna og þar með auknum fjárframlögum. Alþingismenn hljóta að sinna þessu, enda geta þeir ekki vikið sér undan þeirri skyldu að búa svo um hnúta að hér verði hægt að halda uppi lögum og reglu og tryggja öryggi almennings.“