- Advertisement -

Ráðherrar harðneita ítrekað að upplýsa hverjir keyptu eignir Íbúðalánasjóðs

Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Sæmundsson hafa reynt að ná fram upplýsingum frá ráðherrum en hafa ekki verið virtirs svars.

Þingmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson hefur margreynt að knýja fram upplýsingar um hvað varð um miklar eignir Íbúðalánasjóðs. Forseti Alþingis og þingið sjálft hafa lagst á árar með Þorsteini. Það gagnast ekkert. Framkvæmdavaldið verst og upplýsir ekkert.

„Á morgun, á næstsíðasta degi fyrir jólahlé þingsins, verður mánuður liðinn frá því að sá sem hér stendur lagði fram í sjötta sinn fyrirspurn um sölu á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs. Svar hefur enn ekki borist. Eins og ég segi var þessi fyrirspurn þá lögð fram í sjötta sinn,“ sagði Þorsteinn í ræðustól þingsins.

„Hún hefur verið lögð fyrir félags- og barnamálaráðherra og nú er hún lögð fyrir dómsmálaráðherra. Þessir tveir ráðherrar hafa kosið að hunsa þingið gjörsamlega með því að svara ekki fyrirspurninni. Það er líklega eitt og hálft til tvö ár frá því að hún kom fram fyrst,“ sagði hann og bætti svo við:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ég verð að segja, herra forseti, að þetta er algjörlega ólíðandi framkoma framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Ég heiti á forseta að sjá til þess að þessari fyrirspurn verði svarað áður en þingið fer í jólaleyfi og að hún týnist ekki í jólabókaflóðinu. Þess vegna legg ég svo á og mæli um við forseta og bið hann um liðsinni enn einu sinni að hann hjálpi til við að þessari fyrirspurn verði svarað.“

Steingrímur J. Sigfússon þingforseti brást við:

„Er þá ekki rétt, háttvirtur þingmaður, að við upplýsum að þetta mál á sér orðið langa sögu? Forseti og forsætisnefnd hafa lagt sitt af mörkum, samanber umfjöllun okkar um þetta í sumar, ítarlega greinargerð sem lagaskrifstofa þingsins tók saman og bréf sem voru í framhaldi send viðkomandi ráðuneytum þar sem tekið er nokkuð afdráttarlaust af skarið um það að ráðuneytunum ber að svara fyrirspurninni. Ég tel að það megi til sanns vegar færa að forseti og forsætisnefnd hafi lagt háttvirtum þingmanni verulegt lið í þessu máli. Ég er jafn áhugasamur um að sjá svörin koma frá ráðuneytunum og hver annar í ljósi þeirrar vinnu sem þingið hefur lagt í að gera alveg skýr mörk í máli af þessu tagi. Þar er að sjálfsögðu staðinn vörður um þann mikilvæga rétt sem þingmenn hafa til að afla upplýsinga með fyrirspurnum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: