Stjórnmál „…á sama tíma og forsætisráðherra lofar uppbyggingu opinberra starfa á landsbyggðinni leggur innanríkisráðherrann niður störf í þjónustu við fólk með sameiningu lögregluembætta og sýslumannsembætta. Sama gerir heilbrigðisráðherrann með sameiningu heilbrigðisstofnana yfir gríðarstór landssvæði, þar sem verulegur vafi er á að breytingin skili einhverjum efnahagslegum ávinningi.“
Þannig skrifar formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag. „Í báðum tilvikum tapast verðmæt störf í viðkvæmum byggðum. Í báðum tilvikum er grafið undan þjónustu við fólk í heimabyggð og verðmætum þekkingarstörfum fækkað,“ segir Árni Páll.
„Hið eina sem hönd á festir í sjálfumglöðum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um yfirburði hennar í byggðamálum er yfirlýsing sjávarútvegsráðherra um flutning Fiskistofu til Akureyrar, í fullkomnum ófriði við starfsfólk. Svo hefur reyndar komið í ljós að Fiskistofa á ekki að fara til Akureyrar, bara sumir og kannski ekki nema helmingurinn af starfsfólkinu. Fullkomlega óljóst er hvort meirihluti er fyrir þeirri ráðstöfun á meðal stjórnarflokkanna.“
Að sið stjórnmálamanna talar hann um hvað fyrri ríkisstjórn vann vel og skrifar:
„Ríkisstjórnin ber sér mjög á brjóst og segist vinna í þágu hinna dreifðu byggða og tilkynnir með látum uppbyggingu opinberra starfa í landsbyggðunum. Það var höfuðefni þjóðhátíðarræðu forsætisráðherra.
Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var hins vegar að slá af sóknaráætlanir landshluta og taka af fólki í hinum dreifðu byggðum vald yfir þróun eigin mála. Sóknaráætlanir byggðu á að færa ákvörðunarvald til fólksins sjálfs og að fé til uppbyggingar yrði ráðstafað í heimabyggð. Ný ríkisstjórn færði ákvörðunarvaldið í byggðamálum aftur til Reykjavíkur og breytti því í úthlutunarvald af gömlu sortinni.“
Og að lokum gerir hann athugasemdir við þekkingu, eða þekkingarleysi ráðherranna: „Og það sem athyglisverðast er: Hvorki innanríkisráðherrann né heilbrigðisráðherrann virðast hafa áttað sig á að sunnanverðir og norðanverðir Vestfirðir eru varla í vegasambandi hálft árið! Er hægt að finna ráðlausari ríkisstjórn í byggðamálum?“