- Advertisement -

Ráðherrar Framsóknar eru á fleygiferð eftir braut popúlismans

Stjórnmál Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins og ritstjóri, skrifar að venju grein í Fréttablaðið í dag, nú heggur hann að ráðherrum Framsóknarflokksins, ekki síst að Sigurði Ingi Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra.

Þorsteinn fjallar einnig um ríkisstjórnarsamstarfið og segir meðal annars: „Framsókn sýnist hafa náð þeirri stöðu í stjórnarsamstarfinu að popúlísk viðhorf ganga fyrir þeim ábyrgu. Slíkur tvískinnungur varð einn af mörgum banabitum vinstri stjórnarinnar eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sleppti af henni hendinni. Það er enginn ástæða til að endurtaka þá sögu.“

Sjávarútvegsmálin eru Þorsteini hugleikin, enda var hann á árum áður sjávarútvegsráðherra. Hann gagnrýnir Sigurð Inga harkalega og segir fátt hafa gerst í hans valdatíð og hann talar um ráðaleysi vinstri stjórnarinnar. „Ári eftir að þjóðin felldi vinstri stjórnina standa allar þær breytingar sem hún gerði á skipan sjávarútvegsmálanna óhaggaðar. Ráðherrann er enn stefnulaus. Það sem verra er: Hann er farinn að hugsa eins og ráðherra í vinstri stjórn og boðar aukið svigrúm ríkisstyrktrar útgerðar á kostnað framleiðni og þjóðhagslegrar hagkvæmni.

„Sjávarútvegsráðherra kom stefnulaus inn í ráðuneytið fyrir rúmu ári síðan. Á sumarþingi í fyrra voru gerðar bráðabirgðabreytingar á auðlindagjaldinu af því að ráðherrann vissi ekki hvernig best væri að haga því til frambúðar. Nú á vorþinginu voru aftur gerðar bráðabirgðabreytingar þar sem ráðherranum hafði ekki unnist tími til að hugsa málið til þrautar.“

Þorsteinn rifjar upp að fiskveiðistefnan var eitt stærsta átakamál síðasta kjörtímabils. „Þegar sjávarútvegsráðherra kom til sumarþingsins í fyrra hafði hann þó engar tillögur í farteskinu um nýja skipan fiskveiðistjórnunar. Hann taldi sig þurfa rýmri tíma og boðaði frumvarp að nýjum lögum á haustþingi. Þegar þingi lauk í vor hafði umhugsunartíminn ekki verið nægur og aftur var boðað nýtt frumvarp á næsta haustþingi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: