Björn Leví skrifar fína grein í Moggann í dag. Þar vekur hann athygli á afar sérstakri hefð sem hefur orðið til, eða verið búin til. Enn og aftur bendir Björn Leví á ofgreiðslur til þingmanna og eða ráðherra.
„Nýlega komst mál sem ég hef unnið að á þingi á næsta stig þegar fjármálaráðuneytið tilkynnti á fundi fjárlaganefndar að verið væri að endurskoða reglur um dagpeninga. Ástæðan fyrir því er að ekki hefur verið farið eftir þeim reglum frá því að þær voru settar árið 2009. Hvorki ráðuneyti né skrifstofa Alþingis hefur fylgt reglunum þegar kemur að því að meta hlunnindi sem ráðherrar og þingmenn fá í ferðum sínum til útlanda. Afleiðingin er sú að þingmenn og ráðherrar fá of mikla dagpeninga greidda. Þetta hefur verið viðurkennt í svörum við fyrirspurnum mínum um ferðakostnað og dagpeninga ráðherra. Þar er svarað: „Ráðherra er ekið út á flugvöll í bifreið ráðuneytisins þegar um er að ræða ferðir á vegum ráðuneytisins. Dagpeningar eru ekki skertir vegna ferða í ráðherrabifreið út á flugvöll“ en í reglum um ferðakostnað segir: „Af dagpeningum ber að greiða allan venjulegan ferðakostnað annan en fargjöld svo sem ferðakostnað að og frá flugvöllum.“ Ráðherra fær sem sagt bæði dagpeninga fyrir ferðakostnað og frítt far í ráðherrabíl.
Í svari forsætisráðherra við sömu fyrirspurn er mjög áhugavert svar: „Hefð hefur ekki skapast fyrir því að leggja sérstakt mat á umfangið þannig að það hafi leitt til frádráttar frá almennum dagpeningagreiðslum.“ Það á ekki að þurfa að myndast hefð fyrir því að fara eftir lögum og reglum.
Svar Alþingis við þessu öllu er: „Starfsmenn fjármálaskrifstofu hafa ekki forsendur til þess að leggja fjárhagslegt mat á slík hlunnindi frá þriðja aðila.“ Samt er hægt að leggja mat á það hver upphæð dagpeninga á að vera. Af hverju er þá svona erfitt að meta hversu mikil hlunnindi þingmenn og ráðherrar fá? „Ferð á flugvöll, 5.500 kr. með flugrútunni, hérna eru dagpeningar fyrir því. Fékkstu far á ráðherrabílnum? Endurgreiddu 5.500 kr., takk.“. Mikið var þetta nú erfitt.“