Ráðherrar fá heimsendar tillögur
„Það er brýnt að við hvert skref sé þingið með í ráðum, ekki síst þar sem ríkisstjórn Íslands hefur kosið að vinna einangruð við ákvörðun aðgerða í þeim heimsfaraldri sem nú geisar.“
Fólk nýtur sér heimsendingar ýmiskonar þjónustufyrirtækja. Alþingi er engin undantekning. „Einstaka hagsmunaaðilum er boðið að smíða sínar tillögur og færa ráðherrum en þingið veit í raun ekki hvaðan hugmyndirnar eru komnar,“ skrifar Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í Moggagrein.
Helga Vala skrifar: „Þá ber að nefna þær umtalsverðu tilfærslur á fjármunum skattgreiðenda í ákveðnar aðgerðir sem einstaka ráðherrar ríkisstjórnarinnar telja rétt að fara í. Þar verður Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið fyrir hönd skattgreiðenda, að vera vel vakandi og spyrja hvað verið sé að gera, í þágu hverra, hvernig og af hverju. Hver stjórni ferðinni, hvaðan ráðin koma og hvaða hagsmunaaðilar hafi komið að ákvarðanatökunni. Það er lýðræðisleg skylda þingmanna að spyrja slíkra spurninga og svo í framhaldinu leiðrétta og laga þingmál sem röng eru eða breyta um stefnu ef betri hugmyndir koma fram við meðferð mála.“
Og Helga Vala skrifar einnig: „Það er brýnt að við hvert skref sé þingið með í ráðum, ekki síst þar sem ríkisstjórn Íslands hefur kosið að vinna einangruð við ákvörðun aðgerða í þeim heimsfaraldri sem nú geisar.“
„Einstaka hagsmunaaðilum er boðið að smíða sínar tillögur og færa ráðherrum en þingið veit í raun ekki hvaðan hugmyndirnar eru komnar. Það að draga úr virkni Alþingis á tímum eins og þessum er því ekki bara óvarlegt heldur ólýðræðislegt og eykur hættu á mistökum við lagasetningu og ákvarðanatöku sem getur haft verulegar efnahagslegar og lýðheilsufarslegar afleiðingar í för með sér. Ég vil hvetja almenning til að vera vakandi með okkur og koma ábendingum til þingmanna um hvað það sem betur má fara á þessum tímum. Við þurfum að standa saman í aðhaldinu,“ skrifar Helga Vala Helgadóttir.