Ráðherrar eru ber á brandarakökunni
- Davíð Oddsson sparar sig hvergi þegar hann skýrir stöðu stjórnmálanna og beinir gagnrýni sinni helst að Samfylkingu, VG, Pírötum og eigin flokki, Sjálfstæðisflokki. Fólkið í landinu er ekki bjánar.
Stjórnmál Hluti Reykjavíkurbréfs morgundagsins, í Morgunblaðinu, er tileinkaður íslenskum stjórnmálum og höfundurinn, Davíð Oddsson, eirir engum, alls ekki eigin flokki.
„Fyrir hálfum öðrum áratug stofnuðu fjórir burðugir flokkar „breiðfylkingu“, stóran jafnaðarmannaflokk, og kölluðu Samfylkingu. Nú er aðeins 1,4% fylgi eftir á hvern flokkanna. Sundurlaus delluflokkur eins og Píratar, sem lifði aðeins í örfá ár í Þýskalandi, mældist með risavaxið fylgi hér. Enginn vissi þó fyrir hvað íslenska útgáfan stóð. Vinstri-grænir ætluðu sér að nota „hrunið“ til að skapa sér langvarandi valdaaðstöðu í landinu. Þeim fórst stjórnarþátttakan hrapallega. Flokkur, sem reyndi að kenna einkavæðingu banka um hrunið, gaf óþekktum nafnlausum kröfuhöfum tvo stærstu banka landsins án nokkurrar raunverulegrar umræðu meðal almennings! Sjálfstæðisflokkurinn missteig sig illa í Icesave og er nánast hættur að ræða grundvallarstefnu flokksins og virðist hafa lítinn áhuga á að fylgja henni eftir. Hann víkur sér undan að standa vörð um meginatvinnuvegi landsins og tryggir ekki að ráðherrar í ríkisstjórn sem hann leiðir gangi ekki háskalega um þá. Stjórnarsáttmálinn sækir lítið í stefnu og helstu baráttumál flokksins til langrar tíðar.“
„Búrókratar og svokallaðir „fagmenn“ hrifsa til sín sífellt stærri hlut allra ákvarðana. Lýðræðisleg áhrif hverfa. Þeir sem eru grunaðir um að hafa einhver tengsl við almenning eða umboð þaðan virðast af þeim ástæðum vanhæfir með öllu til að hafa áhrif á þróun mála. Vitnað er í alls konar „stjórnsýslufræðinga“ til að ýta undir þessar lýðræðislegu skekkjur. Og „stjórnmálamennirnir“ sjálfir, en sífellt færri þeirra rísa undir því heiti, halda að þeir eigi að tala fyrir þessari þróun. Engin leiðsögn er veitt um annað. Það eitt að hlusta á þá ómynd er niðurlægjandi og má því ímynda sér hversu niðurlægjandi það ætti að vera að fara sem stjórnmálamaður með slíkan málatilbúnað.
Fólkið í landinu er ekki bjánar. Smám saman rennur þetta upp fyrir fjöldanum. Varla hefst nokkur maður lengur til að mæta á „pólitíska fundi“ enda sjást hinir raunverulegu valdhafar ekki þar og enginn á aðgang að þeim annars staðar. Og þá má ætla að það styttist hratt í að menn hætti að láta hafa sig í það að drattast á kjörstað, þar sem aðeins lágt settir upplýsingafulltrúar hinna raunverulegu valdhafa eru í framboði. Sumir reyndar með ráðherratitil, sem er kirsuberið á brandarakökunni.“