Alþingi Þingmenn vörðu talsverðum tíma í dag til að ræða stöðu dómsmálaráðherrans, Sigríðar Á. Andersen. Staða hennar nánast yfirskyggir önnur þingstörf. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, beindi orðum sínum, í umræðu um störf þingsins, ekki aðeins að Sigríði heldur og að Svandísi Svavarsdóttur.
„Hérna sitja tveir ráðherra á svokölluðum ráðherrabekk sem ég ætla að kalla sakamannabekk, því að báðar hafa þær verið dæmdar af Hæstarétti og báðar hafa þær kosið að gera ekkert í málinu,“ sagði Gunnar Bragi og hélt áfram.
„Maður veltir því fyrir sér og spyr sig: Hvenær þarf ráðherra að axla ábyrgð ef ráðherra er dæmdur af dómstólum landsins? Þær hafa aldrei axlað ábyrgð. Skiptir brotið máli? Skiptir úrskurður máli? Hins vegar er allt í lagi að flæma stjórnmálamenn frá störfum sínum sem saklausir eru. Hversu oft hefur maður heyrt bullið og þvæluna koma upp úr þingmönnum Vinstri grænna þegar einhverjir aðrir eiga í hlut en þeir sjálfir, ráðherrar sem eru jafnvel dæmdir?“