Fréttir

Ráðherrann vildi ekki taka á móti undirskriftum og rak mennina á dyr

By Miðjan

March 23, 2023

Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifaði:

Til hamingju neytendur með 70 ára afmæli baráttusamtaka neytenda þ.23. mars. Barátta neytenda fyrir góðum og bættum viðskiptaháttum er stöðug og neytendur þurfa alltaf að vera á varðbergi til að hagsmunum þeirra sé sinnt svo sem þeir eiga rétt á. Í tilefni dagsins er ekki úr vegi að rifja upp söguna úr kartöflustríðinu þegar þverhausar eins og Jón Helgason Framsóknarmaður var landbúnaðarráðherra og barðist hatrammlega gegn því að neytendur næðu fram rétti sínum.

Neytendum var boðið upp á óætar kartöflur og Neytendasamtökin mótmæltu og kröfðust þess að gerðar yrðu breytingar þannig að neytendur fengju ætar kartöflur. Við stóðum fyrir undirskriftarsöfnun og á örskömmum tíma söfnuðust yfir 10 þúsund undirskriftir því fólki var nóg boðið. Þetta var áður en hægt var að fá aðstoð frá tölvum. Við forustumenn neytenda ég þáverandi formaður Neytendasamtakanna, Jóhannes Gunnarsson þáverandi varaformaður og síðar formaður um árabil og Guðsteinn V. Guðmundsson framkvæmdastjóri gerum hér tilraun til að afhenda þáverandi landbúnaðarráðherra undirskriftirnar og kröfðumst þess um leið að tekið yrði tillit til sjónarmiða neytenda. Jón Helgason þáverandi landbúnaðarráðherra neitaði að taka við undirskriftunum og tók erindinu illa og rak okkur á dyr með þeim ummælum að hann ætlaði ekki að standa fyrir því að það yrði frjáls sala á kartöflum með öllum þeim óþrifnaði sem því fylgdi. Við fórum við svo búið til þáverandi forsætisráðherra Steingríms Hermannssonar, sem tók okkur vel, tók við undirskriftunum og sagðist mundu bregðast við þessu erindi. Það gekk síðan eftir en ekki fyrir hans tilstuðlan svo vitað sé heldur vegna þess að neytendur voru ekki tilbúnir til að láta bjóða sér þetta. Eftir þessa baráttu fjölgaði mjög í samtökum neytenda og samtökin bjuggu að því um árabil að hafa haft sigur í þessari viðureign og ýmislegt fylgdi á eftir.

Neytendur við skulum láta samtakamátt okkar verða til þess að sjónarmið okkar verði virt og við njótum hagræðis af framförum góðri neytendalöggjöf og frjálsri samkeppni.