Sjávarútvegur „„Þeir vildu hafa þetta svona hjá LÍÚ“ sagði ráðherrann þegar hann var spurður um þennan ótrúlega gjörning,“ skrifar Gísli Jónatansson, sem lengi var framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunar í Fáskrúðsfirði. Gísli rifjar þar upp, það sem hann segir „…eitt það ógeðfelldasta sem framkvæmt hefur verið við skiptingu einnar fiskitegundar.“
Gísli rifjar upp hvernig staðið var að kvótasetningu norsk-íslensku síldarinnar í tíð Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Greinin birtist í Morgunnblaðinu í dag.
Lögunum breytt rétt á meðan
„Lög um fiskveiðar utan lögsögu (151/1996) tóku á því hvernig skyldi staðið að úthlutun norsk-íslensku síldarinnar. Þar segir m.a. í 5. gr.: „Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni sem samfelld veiðireynsla er á skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra af sex veiðitímabilum.“ Það ótrúlega gerist að þessum lögum er breytt og miðað við átta ár rétt á meðan verið er að kvótasetja síldina, en lögin svo færð til fyrra horfs að því loknu. „Þeir vildu hafa þetta svona hjá LÍÚ,“ sagði ráðherrann þegar hann var spurður um þennan ótrúlega gjörning. Hverjir þessir „þeir hjá LÍÚ“ voru hefur aldrei verið upplýst og hefur þessi úthlutun lengi verið eitt viðkvæmasta mál innan samtakanna, enda eitt það ógeðfelldasta sem framkvæmt hefur verið við skiptingu einnar fiskitegundar.
En hverju breytti þetta? Þetta gerði það að verkum að kvóti þeirra sem mesta veiðireynsluna höfðu í norsk-íslensku síldinni var stóraukinn, en hlutur hinna sem minni reynsluna höfðu var nánast þurrkaður út. Þarna voru ákveðin fyrirtæki stórsköðuð og um leið starfsfólk og viðkomandi sveitarfélög.“
Vantar í mynd Elliða
Gísli Jónatansson byrjar grein sína á athugasemdum við fullyrðingum Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum.
„Í Morgunblaðinu 11. júlí sl. staðhæfir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, að samfélagið þar hafi orðið af 5-6 milljörðum króna frá árinu 2011 vegna þess að ekki hafi verið farið eftir settum reglum við úthlutun makrílkvótans og vísar þar til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.
Mér fannst vanta töluvert inn í þessa mynd sem bæjarstjórinn er að lýsa og langar aðeins til að draga fram hluti sem skipta verulegu máli þegar fjallað er um úthlutun makrílkvótans og hvernig veiðireynslunnar var aflað.“
Í lok greinarinnar skrifar Gísli:
„En víkjum nú að makrílnum. Þegar veiðar á makríl hófust veiddust þessar tegundir gjarnan saman, sem þýddi það að þeir sem fengu þessa aukaúthlutun (síldarábót) í norsk-íslensku síldinni höfðu möguleika langt umfram alla aðra til þess að afla sér reynslu í makríl. Engin leiðrétting hefur fengist á þessu mikla óréttlæti frá þessum tíma og tel ég að umboðsmaður Alþingis hefði þurft að skoða þessi mál í víðara samhengi og taka tillit til þess hverjir voru í bestu stöðunni til að afla sér hlutdeildar í makríl og hvers vegna. Það er svo önnur saga hvernig ákveðnir útgerðarmenn ætluðu að úthluta sjálfum sér kvóta í makríl og skammta öðrum, áður en honum var úthlutað á þann hátt sem kunnugt er.
Ég er sammála bæjarstjóranum um að ekki sé vænlegt að vera stöðugt að hræra í leikreglunum og tel því nauðsynlegt að rifja þetta upp þegar rætt er um ætlaðan tekjumissi Eyjamanna vegna umræddra stjórnvaldsaðgerða.“