Þorsteinn Víglundsson kallaði á mikil viðbrögð þingmanna, við upphaf þingfundar í dag, þar sem hann varð ekki við óskum um að sérstaka umræðu um fátækt.
„Ég óskaði í þarsíðustu viku eftir sérstakri umræðu við hæstvirtan félagsmálaráðherra um fátækt og aðgerðir gegn fátækt. Hæstvirtur ráðherra tók vel í að eiga þá umræðu. Ég var beðin um að senda inn spurningar af því að til stæði að setja þessa umræðu á dagskrá í þessari viku en nú fæ ég að heyra að það standi ekki til að setja þessa sérstöku umræðu á dagskrá né heldur nokkrar aðrar sérstakar umræður,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.
„Þetta er risastórt pólitískt mál, frú forseti, og ég hlýt að furða mig á því ef hvorki á að leyfast að setja þetta mál á dagskrá né aðrar þær sérstöku umræður sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa óskað eftir, væntanlega um mikilvæg pólitísk mál, af því að nú loksins þegar ríkisstjórnin hreyfir sig þá liggur svo á að koma málum hennar á dagskrá,“ sagði hún.
„Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta og krefst þess að gert verði ráð fyrir sérstökum umræðum í þessari viku eins og öðrum vikum. Annað er bara ekki í lagi.“
Ásta Guðrún Helgadóttir sagði meðal annars: „Þetta er málstofa Alþingis þar sem við ræðum formlega um ýmis mál, ekki bara frumvörp ríkisstjórnarinnar þegar henni hentar, heldur er mjög mikilvægt að við eigum umræðu um önnur mikilvæg mál. Að ríkisstjórnin hafi loksins ákveðið eða séð sér fært að afgreiða einhver mál af sinni hálfu þýðir ekki að restin af daglegum störfum þingsins og hlutverki þessarar málstofu sé ekki sinnt.“
Logi Einarsson tók þátt í umræðunum, eða umkvörtunum. „Mér finnst það vanvirðing við þennan stóra hóp sem glímir við fátækt að menn skuli ekki gefa sér örlítinn tíma.“