- Advertisement -

Ráðherrann hefur séð verri dæmi

Bleikja ein vildi fara á fund frelsisins, hoppaði fyrir borð og lenti í hrauninu.

„Ég hef séð verri dæmi. Það eru einhverjir tappar í þessu kerfi sem við þurfum að taka á,“ sagði Kristján Þór Júlíusson þegar Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki benti á furðudæmi úr fiskeldi:

„Það vill svo til að ég var staddur suður í Grindavík fyrir nokkrum mánuðum að skoða þar fiskeldi sem nota bene er búið að bíða í eitt og hálft ár eftir að fá leyfi til að stækka sig vegna þess að viðkomandi stofnanir, sem eru þrjár, taka sér óratíma til að leyfa það. Ég varð vitni að slysasleppingu þar, bleikja ein vildi fara á fund frelsisins, hoppaði fyrir borð og lenti í hrauninu. Þarna eru 7 km í sjó en þessu fyrirtæki er gert að hafa sömu varnir uppi við slysasleppingu eins og sjókvíaeldi. Mér skildist á forstöðumönnum að þetta væri peningalega íþyngjandi,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn sagði einni: „Annað mál sem ég sakna líka og sé ekki hér varðar smærra eldi, eins og maður segir. Frumkvöðull einn norður í landi er búinn að standa í stappi vegna þess að honum er gert að greiða fyrir leyfi til að vera með nokkrar bleikjur í tjörn við bú sitt, greiða leyfi álíka og Arnarlax.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ég get ekki tjáð mig um sérstök mál í hinum fagra dal Svarfaðardal vegna þess að það mál er í kæruferli, en ég hef fullan skilning á þeim sjónarmiðum sem háttvirtur þingmaður ber hér inn varðandi það. Málið er í ákveðnu ferli í viðkomandi stofnun,“ sagði Kristján Þór.

Verið var að ræða breytingar á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: