- Advertisement -

Ráðherra vill að Alþingi samþykki lögbrot

- segir á heimasíðu Öryrkjabandalagsins. „Hvers vegna er gengið fram hjá áætlaðri 6% hækkun launavísitölu?“

„Fjármálaráðherra og meirihluti fjárlaganefndar leggja til við Alþingi að lög um almannatryggingar verði brotin við afgreiðslu fjárlaga,“ segir á vefsíðu Öryrkjabandalagsins, obi.is.

„Í fjárlagafrumvarpi 2019 leggur fjármálaráðuneytið fram nýja túlkun á ákvæði 69. gr. almannatryggingalaga. Í frumvarpinu segir um bætur almannatrygginga: „Hækkun bótanna tekur mið af spá Hagstofu Íslands um þróun vísitölu neysluverðs að viðbættri 0,5% kaupmáttaraukningu. Það er sama forsenda og gildir um launahækkanir í frumvarpinu …“

Það er rangt að það sé sama forsenda og gildir um launahækkanir í frumvarpinu. Frumvarpið byggir eins og fjárlagafrumvörp hingað til á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en samkvæmt henni er áætluð hækkun launavísitölu 6% og má sjá þá forsendu fjárlagafrumvarpsins í frumvarpinu þar sem kemur skýrt fram að gert er ráð fyrir 6% nafnhækkun launa: „Þá er gert ráð fyrir að nafnlaun hækki um 6% á næsta ári…“

Þá kemur einnig fram að gert er ráð fyrir því að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann vaxi um 2,7%. Þrátt fyrir þetta leggur fjármálaráðherra til við Alþingi að það samþykki 0,5% kaupmáttaraukningu lífeyrisþega, að því gefnu að verðbólga fari ekki yfir 2,9%.

Þar segir einnig: „Við fjárlög 2019 er launaþróunin vænlegri kostur en vísitala neysluverðs, en samt er ætlunin ríkisstjórnarinnar og meirihluta fjárlaganefndar að miða einungis við neysluverðsvísitöluna við ákvörðun um hækkun lífeyris almannatrygginga. Í áliti meirihlutans er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki um 3,6% í stað 3,4% sem er í takt við verðbólguspá næsta árs.

Verðbólguspáin hefur hækkað í 3,6% og á hækkun lífeyris almannatrygginga einungis að vera í samræmi við verðbólguspá, sem hækkaði úr 2,9% í 3,6% frá júní til nóvember.

Hvers vegna er gengið fram hjá áætlaðri 6% hækkun launavísitölu?

Hvað varð um 0,5% kaupmáttaraukningu og hvað gerist ef verðbólga verður enn meiri?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: