Því miður er engin von um skilning innan núverandi ríkisstjórnar.
Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:
Ísland hefur nú sérstakan barnamálaráðherra. Sá er Ásmundur Einar Daðason. Mest sláandi fréttin af börnum er sú að þúsundir og aftur þúsundir barna lifa í fátækt. Hér á Íslandi. Það er ömurlegt og ástæðan er helst sú að stjórnmálafólk hefur ákveðið að svona skuli það vera. Ömurlegt.
Barnaráðherrann skrifar: „Börnin í fyrsta sæti við allar ákvarðanatökur. Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögu um að stefnt verði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda og tillögu sem felur í sér að allar stærri ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna. Nái þessar breytingar fram að ganga þá er Ísland að sýna ákveðið fordæmi fyrir önnur lönd þegar kemur að málefnum barna.“
Enn og aftur kemur þetta; Ísland best í heimi, sem er hreint bull. Gerðu betur, ráðherra.
Ef eitthvað er að marka aukið vægi barna í samfélaginu á að byrja á byrjuninni. Þar eiga fátæk börn að vera í fyrirrúmi. Ekkert annað.
Við sem þekkjum fátækt í æsku finnum til að enn séu fátæk börn á Íslandi. Það er óþolandi. Það versta er að stefnt er að halda börnum áfram í fátækt. Meðferð ríkisstjórnarinnar á öryrkjum er skírt dæmi um fantaskapinn. Því miður er engin von um skilning innan núverandi ríkisstjórnar. Þau breyta þessu ekki.
Fátækt barn sér hvað það skortir. Samanburðurinn er fyrir augum þess alla daga. Alltaf. Ekki þarf að telja það allt upp. Samt má nefna, fötin, nestið, tómstundir, heimilið, vasapeninga og svo margt annað.
Sé Ásmundi Einari alvara verður hann að byrja þar sem þörfin er mest. Engin von er til að það verði gert. Króna á móti krónu skerðingin er dæmi um fantaskap ríkisstjórnarinnar, ekki síst Bjarna Ben, sem sannanlega veit ekki hvað skortur er.
Því miður er einskis að vænta. Væri vilji til að bæta stöðu fátækra barna væri búið að gera eitthvað. Meðan það er ekki gert er allt annað veikburða píp.