„Getur hæstvirtur félags- og húsnæðismálaráðherra ekki gripið inn í og stöðvað að Íbúðalánasjóður krefjist þess að málinu sé vísað frá þannig að stefna hennar eigin flokks og kosningaloforð um að dómsmálum er varða húsnæðisskuldir heimilanna skuli flýtt standi?“ Þannig spurði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag.
Eygló Harðardóttir svaraði meðal annars á þennan hátt: „En hvað varðar það sem hæstivirtur þingmaður nefndi er staðreyndin einfaldlega sú að sú sem hér stendur er félagsmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, hefur stutt hagsmunasamtökin sem ráðherra og sem einstaklingur fjárhagslega og er með verðtryggð lán. Það væri því að mínu mati einfaldlega ekki viðeigandi að ég færi að beita mér fyrir því að hafa einhver áhrif á það hvernig Íbúðalánasjóður telur best að haga þessum málum.“
Jón Þór hóf mál sitt á þennan hátt: „Mig langar að minna hæstvirtan félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur á ályktun framsóknarmanna fyrir kosningar. Þetta var á flokksþingi og þar var sagt, með leyfi forseta:
„Brýnt er að lausn fáist sem fyrst í dómsmál varðandi skuldir heimilanna en ólíðandi er hve langan tíma hefur tekið að greiða úr málum, því skal tryggja flýtimeðferð slíkra mála,“ sagði Eygló, en aftur að ræða þingmannsins. Hér er brot af því sem hann sagði:
„Þessi flýtimeðferð hefur verið tryggð með lögum. Hæstvirtur ráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir gerði það síðasta sumar. Fyrir jólin skapaði hún líka svigrúm þannig að fólki verður ekki vísað af heimilum sínum fram í september. Nú hafa Hagsmunasamtök heimilanna farið af stað með dómsmál um skuldamál heimilanna. Þetta er dómsmál gegn Íbúðalánasjóði um verðtrygginguna, hvort hún hafi verið ólöglega útfærð. Íbúðalánasjóður eða yfirstjórnin ákvað hins vegar, skiljanlega, að láta vísa málinu frá en það er náttúrlega hlutverk þeirra sem starfsmenn að verja Íbúðalánasjóð og ef þeir geta ekki gert það ættu þeir kannski ekki að sitja þar áfram. En ráðherra getur gripið inn í og verið stefnumótandi hvað þetta varðar.“
Sífellt aukin lestur – yfir átján þúsund hafa lesið Miðjuna síðustu fjórar vikur.