Ráðherra stefnir lífi fólks í voða
- segir Birgitta á Alþingi. Ráðherra vonsvkinn og biðst ekki afsökunar.
„Það er ekki hægt að stofna lífi fólks í voða út af hroðvirknislegum vinnubrögðum ráðherra,“ sagði Birgitta Jónsdóttir á Alþingi fyrir stundu. Hún brást við tilkynningu Þorsteins Víglundssonar félagsmálaráðherra.
„Í samkomulagi um þinglok nú um helgina, sem vonandi hefur náðst, varð sátt um að málefni fatlaðra og félagsþjónusta sveitarfélaga myndu bíða haust og njóta þar sérstaks forgangs í meðhöndlun þingsins,“ sagði Þorsteinn.
„Það er ekkert launungarmál að niðurstaðan olli mér talsverðum vonbrigðum því að ég taldi mikilvægt að málið kæmist tímanlega fram til undirbúnings, bæði fyrir sveitarfélög og ríki í aðlögun. En með þessa niðurstöðu treysti ég því hins vegar að myndast geti góð samstaða á þingi í haust um að ljúka málinu tímanleg. Það er mjög brýnt að sveitarfélögin fái ráðrúm til þess að undirbúa innleiðingu þessara mikilvægu breytinga og ekki síður að skjólstæðingar, þeir sem njóta eiga þessarar þjónustu, fái góðan fyrirvara gagnvart því.“
Katrín Jakobsdóttir brást við og sagði að ekki sé verið að semja mál út af borðinu. „Hér er verið að horfast í augu við raunveruleikann sem er sá að Alþingi þarf að vanda sig við löggjöf.“
Logi Einarsson var ekki hress: „Mér finnst yfirlýsing hæstvirts ráðherra áðan vera ómerkilegur kattarþvottur.“ „Hann er búinn að setja okkur í þá stöðu núna að við þurfum að fara að verja okkur, bera af okkur sakir. Þetta er ómerkilegt pólitískt trix. Mér finnst að ráðherra hljóti að vilja vera meiri maður en þetta.“
Birgitta kom næst í ræðustól: „Það er ekki hægt að stofna lífi fólks í voða út af hroðvirknislegum vinnubrögðum ráðherra. Það er með ólíkindum að ráðherrann skuli segja þetta þrátt fyrir það samkomulag og samstöðu sem var meðal allra sem funduðu hér um helgina, um að við vildum gera þetta vel, að það yrði hluti af yfirlýsingu um þinglok að þetta væri algert forgangsmál í haust, af því við vildum gera þetta vel í samstarfi við þá sem þurfa að nýta sér þessa þjónustu.“ „Ég krefst þess, ef ekki hér á allt að fara í uppnám, að hæstvirtur ráðherra leiðrétti þennan misskilning og biðjist afsökunar,“ sagði Birgitta. Ráðherra hefur ekki orðið við kröfu um afsökunarbeiðni.
-sme