„Það var ekki eftir neinu að bíða. Efnislegri umræðu um skýrsluna nánast lauk daginn sem skýrslan var lögð fram. Fljótlega fóru menn að ræða framhaldið, fóru að ræða með eða á móti Evrópusambandinu,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, á Sprengisandi sunnudaginn 23. febrúar, það er þegar innan við tveir sólarhringar voru frá því að hann kynnti þingflokkum stjórnarflokkanna þingsályktunartillögu sína um að Ísland slíti viðræðum við Evrópusambandið.
„Tökum umræðuna. Til þess gerðum við skýrsluna, hún kostaði 25 milljónir. Mjög vönduð vinna. Núna getum við tekið umræðuna um hvað felst í að vera í Evrópusambandinu,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í gær. Þar sem stangast viðhorf þeirra á, Gunnar Bragi segir umæðunni um skýrsluna, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, hafa lokið strax meðan Guðlaugur Þór kallar eftir umræðu.
En hvert var stöðumat ráðherrans þá. Var hann sáttur við þá stöðu sem uppi var sunnudaginn fyrir rúmri viku?
„Ég er mjög sáttur við að þessi tillaga sé komin fram.“ Hann sagðist vita til að fleiri væru sáttir við að fá svo skýra línu. Hann sagði að þegar Evrópusambandinu var kynnt afstaða ríkisstjórnar, fengust þau skilaboð að Ísland gæti ekki látið málið hanga að eilífu, að við yrðum að svara hvað við ætluðum að gera.
„Nú erum við að svara því með að draga umsóknina til baka.“ Hann sagði að jafnframt væri þess getið í þingsályktunartillögunni að ekki yrði efnt til nýrra viðræðna nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þegar Gunnar Bragi Sveinsson er spurður hvort þetta sé ekki það sem hann hafi stefnt að lengi, svarar hann. „Það er ekki bara ég. Meirihluti þingmanna er á móti að ganga í Evrópusambandið. Ég hef alltaf verið á móti að ganga í Evrópusambandið.“
En hvað með þá vinnu sem er að baki, ónýtist hún?
„Alls ekki. Það sem hefur gerst á þessum tíma, og fyrir það ber að þakka, að nú vitum við miklu meira um Evrópusambandið en áður og þeir um okkur.“
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild á Vísi og heimasíðu Bylgjunnar.