- Advertisement -

Ráðherra segir pass um Hvalárvirkjun

Þórdís Kolbrún segir ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða hvar verður virkjað og hvar ekki.

Hanna Katrín og Þórdís Kolbrún töluðu um Hvalárvirkjun eða ekki Hvalárvirkjun.

„Hugmyndir um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum eru orðnar nær 100 ára gamlar. En í ljósi þess hita sem verið hefur í umræðunni síðustu vikur, síðustu mánuði, er mikilvægt í tengslum við umræðuna um raforkumál á Vestfjörðum að fá svör frá hæstvirtan ráðherra við því hvort hún telji Hvalárvirkjun ákjósanlegustu leiðina til að auka afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum. Ef svo er, mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að sú leið verði farin? Er samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þá vegferð sem segja má að löggjöfin hafi sett málið í með því að setja virkjunina í rammaáætlun eða nýtingarflokk þegar rammaáætlun samþykkt var árið 2013?“

Þannig spurði Hanna Katrín Friðriksson Þordísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur iðnaðarráðherra.

Ekkert í ræðu ráðherra svarar beint því sem hún var spurð um. En hún segir að Hvalaárvirkjun myndi auka orkuöryggi Vestfirðinga.

„Hvalárvirkjun myndi bæta afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum að því leyti að með tilkomu hennar yrðu Vestfirðir væntanlega óháðir bilunum á stórum hluta vesturlínu sem verið hefur mjög bilanagjörn. Vesturlína er sem kunnugt eina raforkuæðin inn til Vestfjarða og liggur frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun, um 160 km leið. Hversu mikið afhendingaröryggi myndi aukast við þetta veltur á því hvar tengingin við vesturlínu yrði staðsett, hvort það yrði vestarlega eða austarlega og þar með hversu stórum hluta vesturlínu Vestfirðir yrðu óháðir.“

Ráðherrann segir ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða hvar verður virkjað og hvar ekki.

„Hvað varðar aðkomu ríkisstjórnarinnar þá er það ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða í hvaða virkjunarframkvæmdir ráðist er. Um slíkar ákvarðanir gilda lögbundir ferlar þar sem rammaáætlun gegnir lykilhlutverki. Alþingi varðar veginn í þessum efnum og síðan taka við viðeigandi leyfisveitingaferlar, skipulagsmál og þess háttar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: