Ráðherra, sefur þó rótt?
Pólitísk stefna opinberast einna skýrast í fjárlögum ríkisstjórna. Ríkisstjórn Katrínar og Bjarna talar skýrt. Eybjörg H. Hauksdóttir birtir forvitnilegar staðreyndir í Moggagrein í dag. Eybjörg er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Eybjörg: „…í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2020 gert ráð fyrir að áframhaldandi skerðingu á fjárframlögum til hjúkrunarheimila, eins og gert hefur verið á þessu ári og gert var á því síðasta. Árið 2018 nam „aðhaldskrafan“ 215,5 milljónum króna, árið 2019 nam hún 201,3 milljónum og í drögum að næsta fjárlagafrumvarpi er gerð tillaga að 279,6 milljóna króna „aðhaldskröfu“ á árinu 2020. Samtals nemur skerðingin 1,3 milljörðum króna frá ársbyrjun 2018 og árlegt rekstrarfé hjúkrunarheimila verður um 700 milljónum króna lægra en ef ekki hefði komið til umræddra „aðhaldskrafna“.“
Þetta eru staðreyndir og það ömurlegar. Hér kemur kafli. Mjög dæmigerður:
„Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa margoft upplýst alþingismenn um þessa hættulegu stefnu stjórnvalda. Ef til vill er það ein ástæða þess að fjárlaganefnd lagði til í meirihlutaáliti sínu um fjármálaáætlunina í vor að „ráðherra skipi þverpólitíska nefnd sem fari yfir rekstur og framtíðarfyrirkomulag á byggingum og rekstri hjúkrunarheimila“. Heilbrigðisráðherra hefur hins vegar ekki skipað slíka nefnd og nú, tæpu hálfu ári síðar, eru komin fram drög að nýju fjárlagafrumvarpi sem kveður á um áframhaldandi niðurskurð á rekstrarfé hjúkrunarheimila,“ skrifar Eybjörg.
Íslensk stjórnmál í hnotskurn. Í gerðum stjórnmálamanna sannast enn og aftur að ekki er sama Jón og séra Jón.
„Stundum er sagt að á uppgangstíma í hagkerfinu sé mikilvægt að ríkissjóður gæti aðhalds í fjárútlátum en gefi frekar í þegar horfir til efnahagslægða. Þegar efnahagshrunið skall á samfélaginu árið 2008 voru útgjöld ríkissjóðs skorin niður á sem flestum sviðum. Fjármagn til hjúkrunarheimila og annarra heilbrigðisstofnana var skorið markvisst niður. Undanfarin ár hefur ríkt ákveðinn stöðugleiki í fjármálum og jafnvel „góðæri“ á flestum sviðum eins og t.d. sést í stórauknum útgjöldum ríkissjóðs. Margar heilbrigðisstofnanir hafa fengið aukið rekstrarfé á hverju ári undanfarin ár, en hvorki hjúkrunarheimilin né dagsdvalirnar. Samt stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2017: „Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila.“
Svona er það. Eybjörg endar grein sína svona:
„Fagaðilar sem starfa á hjúkrunarheimilum og dagsdvölum landsins eru farnir að óttast næstu efnahagslægð því hvar er hægt að draga saman ef aldrei er gefið í? Hvar skal bera næst niður við niðurskurð í rekstri, í samræmi við aðgerðir stjórnvalda eins og þær birtast í drögum fjárlagafrumvarpsins. Eftir því sem líður á hagsveifluna og „aðhaldskröfunni“ er oftar beitt verður sú spurning áleitnari hvort aldrei komi að góðæri hjá hjúkrunarheimilum.“