Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, upplýsti á Alþingi að áform Isavia um allt að fjörutíu milljarða framkvæmdir á ári, hafi breyst verulega. „Þeir voru komnar niður í 25 milljarða, en ég talaði við formann stjórnar fyrir tæpri viku og nú eru þetta tíu til fimmtán milljarðar. Ég legg mikla áherslu á að dempa þetta,“ sagði Benedikt.
Verið var að ræða hvort og hvað væri hægt að gera til að stöðva styrkingu krónunnar.
Í svari sínu var Benedikt að svara Gunnari Braga Sveinssyni, sem spurði Benedikt hvort til greina komi að hægja á ákveðnum verkefnum eða jafnvel fresta þeim. „Þá á ég til dæmis við framkvæmdir við Leifsstöð þar sem Isavia virðist einhvern veginn halda að það fyrirtæki sé óháð öðrum framkvæmdum í landinu, en tugmilljarða eða hundraða milljarða framkvæmdir þar hafa að sjálfsögðu áhrif á aðra framkvæmdamöguleika í landinu og þar með hættu á þenslu.“